Rúmlega 70 menntaskólanemar, sem lifðu af þegar ferjan Sewol sökk í Suður-Kóreu í apríl, hafa nú snúið aftur í skólann. Þangað hafa nemendurnir ekkert komið síðan slysið varð en hafa sótt ýmsar sálfræðimeðferðir og fengið áfallahjálp.
Grátandi ættingjar þeirra sem létust í slysinu stóðu við skólann á meðan nemendurnir gengu inn. Sumir stoppuðu og föðmuðu ættingjana.
Þann 16. apríl voru 325 nemendur úr skólanum um borð í ferjunni, en 245 þeirra létust í slysinu. Enn á þó eftir að finna nokkra.
Nemendurnir voru klæddir í svarta og hvíta skólabúninga og gengu inn í skólann í alvöruþrunginni skrúðgöngu ásamt foreldrum sínum. Stórt skilti sem á stóð „Við biðjum þess að þeir dauðu fái að hvíla í friði“ hékk við inngönguhlið skólans.
Hluti af nemendurnir munu bera vitni í tveimur réttarhöldum sem tengjast slysinu í næsta mánuði. Bæði hefur skipstjóri ferjunnar, Lee Joon-seok og 14 áhafnarmeðlimir verið ákærðir ásamt eigendum fyrirtækisins sem rak og átti ferjuna.
Skipstjórinn og áhafnarmeðlimirnir hafa verið ákærðir fyrir að setja sitt eigið öryggi fram yfir öryggi farþeganna ásamt því að valda fleiri dauðsföllum með því að segja fólki að vera um kyrrt í káetum sínum á meðan ferjan sökk.
Jafnframt hafa eigendur ferjunnar verið ákærðir fyrir að ofhlaða skipið og fyrir að þjálfa ekki áhafnarmeðlimi ferjunnar í öryggismálum.