Belgískur dómstóll úrskurðaði í dag að nafntogaður hórmangari þar í landi megi ekki kalla nýjasta vændishús sitt „DSK“, sem svo vill til að eru upphafsstafir fyrrverandi framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins,
Dominique Strauss-Kahn er gjarnan kenndur við upphafsstafi sína DSK í hinum frönskumælandi heimi, bæði Frakklandi, Belgíu og Sviss.
Strauss-Kahn er ákærður ásamt 12 öðrum fyrir að hafa skipulagt svallveislur þar sem vændiskonur mættu og þjónuðu honum og vinum hans. Hann viðurkennir að hafa mætt í slíkar veislur en neitar að hafa vitað að konurnar fengju greitt fyrir að taka þátt. Búist er við að dómur falli síðar á þessu ári.
Belgíski hórmangarinn Dominique Alderweireld, betur þekktur sem „Dodo la Saumure,“ er talinn hafa verið viðriðin skipulagningu vændishringsins sem Strauss-Kahn átti viðskipti við, og er einn þeirra 12 sem einnig eru ákærðir. Ekki þykir því fara á milli mála við hvað hann átti þegar hann nefndi nýjasta klúbbinn, í bænum Blaton nærri landamærum frakklands, DSK.
Sjálfur sagði hann fyrir dómnum að þetta væri skammstöfun fyrir „Dodo Sex Klub“, en áður hafði hann þó sagt í viðtali við Afp fréttaveituna að nafnið væri tær snilld í markaðslegum skilningi, því DSK sé á allra vörum.
Lögmenn Strauss-Kahn stefndu hórmangaranum fyrir að sverta mannorð hans með nafnavalinu og félst dómstólinn í Brussel á rök þeirra. Alderweireld segist nú ætla að nefna næsta klúbb sem hann opnar „Carlton“, með vísan í lúxushótelið í norðurhluta Frakklands þar sem svallveislurnar með Strauss-Kahn voru haldnar.