Ísraelskir drengir fundust látnir

Ísraelar búsettir í borginni El'Ad söfnuðust í kvöld fyrir utan …
Ísraelar búsettir í borginni El'Ad söfnuðust í kvöld fyrir utan heimili eins drengjanna skömmu eftir að ísraelsk stjórnvöld staðfestu að lík þeirra hefðu fundist. AFP

Þrír ísraelskir unglingspiltar hafa fundist látnir nærri bænum Halhul norðan Hebron í Palestínu. Drengirnir hurfu sporlaust fyrr í mánuðinum en fundust nýlega látnir í skurði. Þetta kemur fram á vef BBC.

Síðast sást til drengjanna við gatnamót nærri Hebron þar sem þeir ferðuðust á puttanum heim til sín. Tveir þeirra voru 16 ára gamlir og einn var 19 ára.

Stjórnvöld í Ísrael saka Hamas-samtökin um að bera ábyrgð á dauða piltanna en samtökin neita ásökunum.

Búið er að loka svæðum í kringum Halhul aðeins fáeina kílómetra frá þeim stað þar sem síðast sást til drengjanna. 

Í síðustu viku voru tveir handteknir en báðir voru þeir tengdir Hamas-samtökunum. Báðir neituðu þeir sök. Hamas-samtökin ítrekuðu jafnframt hlutleysi sitt í málinu.

Málið hefur leitt til aukinnar spennu í samskiptum Ísraela og Palestínu.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, segir að málið sé afleiðing samkomulags um sættir sem Hamas-samtökin og Fatah-hreyfingin undirrituðu í apríl. Þau höfðu fram að samkomulaginu staðið í áralöngum deilum en fyrr í þessum mánuði mynduðu samtökin nýja samsteypustjórn. 

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert