Lýsa yfir stríði gegn 120 milljónum

Fólk mótmælti ofbeldinu í Írak í Haag á sunnudaginn.
Fólk mótmælti ofbeldinu í Írak í Haag á sunnudaginn. ROBIN VAN LONKHUIJSEN

Það vakti mikla athygli á sunnudaginn þegar skæru­liðasam­tök­in ISIS lýstu yfir stofn­un kalíf­a­dæm­is á þeim landsvæðum sem samtökin ráða yfir í Írak og Sýr­landi. Jafn­framt lýsti ISIS því yfir að leiðtogi sam­tak­anna, Abu Bakr al-Bag­hda­di, væri nú kalífi mús­líma alls staðar í heim­in­um. 

ISIS kallar sig nú Islamic State á ensku eða IS. Yf­ir­ráðasvæði þeirra nær í dag frá borg­inni Al­eppo í norður­hluta Sýr­lands til Diyala-héraðs í norður­hluta Íraks. 

Kalífi þýðir eftirmaður

En hvað er kalífadæmi og hvaða merkingu hefur það fyrir múslíma?

Í sinni mestu einföldun var kalífadæmið ríki múslíma á öldunum eftir að Múhameð spámaður lést. Múhameð var leiðtogi múslíma á meðan hann lifði og trúa múslímar að hann hafi verið í beinu sambandi við Guð, rétt eins Jesús Kristur samkvæmt kristinni trú.

Þegar Múhameð lést árið 632 hafði hann ekki fyrirskipað hver skyldi verða eftirmaður hans. Fóru múslímar þá að reyna að finna út hver það skyldi vera en orðið kalífi þýðir eftirmaður. 

Deilur um hver skyldi vera eftirmaður Múhameðs urðu til þess að trúin skiptist í tvær fylkingar, súnníta og sjíta. Súnnítar héldu því fram að Abu Bekr, tengdafaðir Múhameðs, skyldi verða leiðtogi trúarflokksins, en sjítar litu svo á að Ali, uppáhalds tengdasonur Múhameðs, skyldi vera eftirmaður hans. Þessi skipting hefur haldist síðan eða í tæplega 1400 ár. 

Í dag eru súnnítar um 90% allra múslíma í heiminum eða um 940 milljónir talsins. Hinsvegar eru sjítar aðeins um 10% og eru um 120 milljónir. Sjítar eru við völd í Íran, Írak og Jemen en súnnítar ráða ríkjum í öllum öðrum múslímaríkjum. 

Féll með Ottóman-heimsveldinu

Sjítar hættu að útnefna kalífa frekar stuttu eftir fráfall Múhameðs en súnnítar gerðu meira úr embættinu sem bjó bæði yfir trúarlegu og pólitísku valdi. Kalífinn hverju sinni valdi hvar höfuðstöðvar kalífadæmisins voru og voru þær meðal annars í Baghdad, Damaskus og Istanbúl, en þar varð Ottóman-heimsveldið til, sem breiddi úr sér til þriggja heimsálfa á 500 árum.

Ottóman-heimsveldið féll í fyrri heimstyrjöld og var öllu landi þess skipt upp eftir stríðið af vestrænum þjóðum. Þá varð meðal annars Tyrkland til í hjarta gamla Ottóman-heimsveldisins. Hinsvegar leit stofnandi Tyrklands, Mustafa Kemal Atatürk, svo á að íslam væri ógn gangvart ríki sínu og rak seinasta kalífann, Abdulmecid Efendi, úr landi. Hann fluttist til Frakklands og bjó bæði í París og Nice. Það var árið 1924 og með því var kalífadæmið lagt niður. 

Besta leiðin til að sameina múslíma?

Árin liðu og hinn vestræni heimur gleymdi kalífadæminu að mestu leyti, en það gerðu múslímar hinsvegar ekki. Bræðralag múslíma var stofnað í Egyptalandi 1928 sem tilraun til þess að endurskapa kalífadæmið. Aðrir hópar fylgdu í fótspor þeirra sem áttu allir sameiginlegt að vera róttækir í því skyni að þeir sóttust eftir því að umturna skipun múslímska heimsins sem varð til eftir fyrri heimstyrjöld.

Mörgum öðrum múslímum, sem voru þó ekki eins róttækir, leist þó vel á hugmyndina. Sumir múslímar hafa í gegnum tíðina sett ábyrgðina á erfiðleikum arabíska heimsins á þessi nýju landamæri sem Evrópuþjóðirnar skipuðu á sínum tíma. Í grein Karls Vick, sem birtist á vefsíðu tímaritsins Time í dag, vitnar Vick í tyrkneska rithöfundinn Ali Bulac sem segir að hugtakið kalífaríki sé mörgum múslímum ferskt í minni og að margir líti svo á að það gæti verið það sem myndi sameina múslímskt samfélag.

Stefna á að endurskipuleggja hinn múslímska heim

Osama bin Laden, fyrrum foringi al-Qaeda, kallaði hryðjuverkin 11. september 2001 lítilvægileg miðað við niðurlæginguna sem fylgdi því þegar kalífadæmið var lagt niður árið 1924. Jafnframt fjallaði IS um þá sömu niðurlægingu í tilkynningunni sem samtökin gáfu út á sunnudaginn er þeir tilkynntu um nýtt kalífadæmi. 

Jafnvel áður en stofnun kalífadæmisins var lýst yfir á sunnduaginn notaði IS myllumerkið #sykespicotover eða „Sykes og Picot búnir“ á Twitter. Þar var IS greinilega að vitna í Bretann Mark Sykes og Frakkann Georges Picot, en það voru þeir sem skiptu upp Mið-Austurlöndum við endalok fyrri heimstyrjaldarinnar árið 1918. Má túlka þessi orð IS þannig að samtökin stefni á að endurskipa hinn múslímska heim. 

Hópurinn er þó róttækur á fleiri vegu. Til að mynda hefur stofnandi IS, Abu Bakr al-Baghdadi, sem segist nú vera kalífi, lýst öllum sjítum stríði á hendur. Hefur hann sagt opinberlega að hermenn IS ættu „græðgislega að drekka blóð þeirra sem trúa ekki“ og vísar þá til þeirra 120 milljóna múslíma sem flokkast sem sjítar.

Grein Time um málið.

Abu Bakr al-Baghdadi.
Abu Bakr al-Baghdadi. HO -
Íraskir menn vopnbúa sig fyrir átök gegn IS.
Íraskir menn vopnbúa sig fyrir átök gegn IS. MARWAN IBRAHIM
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert