Ritstjórinn fékk átján mánaða fangelsisdóm

Andy Coulson umkringdur blaðamönnum.
Andy Coulson umkringdur blaðamönnum. AFP

Andy Coulson, fyrrverandi ritstjóri götublaðsins sáluga News of the World og fyrrverandi aðstoðarmaður breska forsætisráðherrans, Davids Camerons, hefur verið dæmdur í átján mánaða fangelsi fyrir þátt sinn í símhlerunarhneykslinu.

Coulson var fundinn sekur í júní um að hafa lagt á ráðin í hlerunarmálinu, þar sem m.a. var brotist inn í talhólf frægra einstaklinga. Refsing hans var kveðin upp í dag.

Réttarhöldin í málinu stóðu yfir í átta mánuði.

Fyrrverandi fréttastjóri News of the World, Greg Miskiw blaðamaðurinn Neville Thurlbeck fengu sex mánaða dóm. Einkaspæjarinn Glenn Mulcaire fékk einnig sex mánaða dóm, en hann var skilorðsbundinn.

Fjórmenningarnir játuðu aðkomu sína að málinu.

Cameron neyddist í síðustu viku til að biðjast opinberlega afsökunar í kjölfar þess að Coulson var fundinn sekur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert