Þjóðhetja með myrk leyndarmál

Hann var fastur gestur bresku sjónvarpi í meira en hálfa öld. Hann skemmti börnum bæði með tónlist sinni, teikningum og þáttum. Ekki nóg með það heldur málaði hann meira að segja sjálfa drottninguna á 80 ára afmæli hennar 2006. Rolf Harris var þjóðhetja. Það var því mikið áfall fyrir bresku þjóðina þegar að fréttir bárust af handtöku Harris í mars á seinasta ári fyrir kynferðislegt ofbeldi gegn stúlkum. Fórnarlömb hans voru stúlkur á aldrinum sjö til nítján ára og áttu brotin sér stað á árunum 1968 til 1986. 

Þjóðþekkt andlit síðan 1952

Harris fæddist í Ástralíu en fluttist til London þegar hann 22 ára gamall árið 1952. Fljótlega skráði hann sig í listaháskóla þar sem hann lærði myndlist. Ári seinna var hann orðinn þekkt andlit í barnasjónvarpi BBC. Frægðarsól hans reis hratt og á sjötta áratugnum var hann bæði þekktur á BBC og í auglýsingum. 

Árið 1959 fluttist hann aftur til Ástralíu þar sem hann framleiddi og stjórnaði sínum eigin þætti. Þar fór hann að prófa sig áfram í tónsmíðum en hann átti mörg lög á vinsældarlistum á sjöunda áratugnum. Hans þekktasta útgáfa er líklegast lagið „Tie Me Kangaroo Down Sport.“

Á níunda áratugnum var Harris hvað þekktastur fyrir barnaþætti sem hann stjórnaði enn á ný á BBC. Þeir gengu í tíu ár eða til ársins 1989 þegar hætt var framleiðslu á þáttunum. Samkvæmt grein BBC greindist Harris í kjölfarið með þunglyndi og óttaðist að ferli hans væri lokið. 

Hinsvegar var hann aftur ráðinn á BBC árið 1994 þar sem  hann stjórnaði þætti um velfarnað dýra sem gengu í tíu ár. 

Þögguðu niður fjölmiðla

Rannsókn á Harris kom í kjölfarið á rannsókn á breska sjónvarpsmanninum Jimmy Savile. Þegar Salvine var rannsakaður kom í ljós að hann hafi misnotað fleiri hundruð manns ásamt því að misnota lík kynferðilega. Stjórn Broa­dmoor-geðsjúkra­húss­ins í Bretlandi hef­ur staðfest  Harris heim­sótti sjúkra­húsið í boði Sa­vile, sem þar vann sjálf­boðavinnu árum sam­an og þar sem hann nálgaðist mörg af sínum fórnarlömbum. Harris og Savile voru góðir félagar sem unnu nokkrum sinnum saman. 

Til að mynda birtust þeir saman árið 1993 á sjónvarpsstöðinni ITV West þar sem þeir göntuðust og Harris m.a. málaði Savile sem sat í stól með vindil. Myndbandið má sjá hér að neðan.

Þrátt fyrir að handtaka Harris sé ótengd máli Savile, þá var það það sem hvatti eitt fórnarlamba Harris að stíga fram. Harris var fyrst yfirheyrður í nóvember 2012 en síðan handtekinn 28. mars 2013. 

Lögreglan staðfesti þó ekki að það væri Harris sem hafði verið handtekinn og jafnframt forðuðust bresk dagblöð að fjalla um það eftir að hafa fengið viðvörunarbréf frá lögfræðingum hans. Gamli vinnustaður Harris, breska ríkisútvarpið, ákvað einnig að sleppa umfjöllun um málið.

Það var ekki fyrr en nokkrum vikum seinna að nafn Harris komst aftur í sviðsljósið. Dagblaðið the Sun var fyrst til þess að birta frétt þess efnis að Harris hafði verið handtekin og gerðu fleiri fjölmiðlar það í kjölfarið.

Á níunda áratugnum framleiddi Harris tvö fræðslumyndbönd fyrir börn þar sem hann varaði þau og foreldra þeirra við hættunum sem fylgdu misnotkun. 

Dómurinn yfir Harris hefur haft miklar afleiðingar gagnvart orðspori hans í heimalandi hans Ástralíu. Til að mynda er búið að fjarlæga innrammaða mynd af honum á skrifstofu bæjarstjóra Bassendean, þar sem Harris ólst upp. 

Tróð upp á Glastonbury

Síðustu ár hefur Harris einbeitt sér aðallega að því að mála en hefur þó reglulega birst opinberlega. Til að mynda gegndi hann stóru hlutverki sumarið 2012 í hátíðarhöldunum sem fylgdu 60 ára krýningarafmæli Elísabetar drottningar. Einnig hefur hann komið  fimm sinnum fram á Glastonbury hátíðinni, fyrst árið 1993 en síðast árið 2013. 

Samstarfsfólk hans úr skemmtana- og fjölmiðlageiranum hafa lýst yfir undrun sinni á glæpum Harris. Blaðakonan Amanda Platell ræddi við breska ríkisútvarpið og lýsti því yfir að hún vonaði að ásakanirnar gegn vini hennar væru ósannar. 

Jafnframt sagði Andrew Billen, sjónvarpsgagnrýnandi hjá tímaritinu Time, að Harris væri seinasta manneskjan sem hann gæti ímyndað sér að gera eitthvað rangt, hvað þá eitthvað svona hræðilegt.

Neitar sök

Í ágúst 2013 var Harris formlega ákærður fyrir að hafa áreitt kynferðislega fjórar stúlkur á 18 ára tímabili. Í dag var hann dæmdur í rúmlega fimm ára fangelsi fyrir brotin. Hann hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu.

Fórnarlömb Harris hafa öll komið fyrir dómi og borið vitni. Öll sögðu þau að ástæða þess að þau tilkynntu ekki brotin á sínum tíma var vegna þess að þau vissu að þeim yrði ekki trúað. Saksóknarinn í málinu, Sasha Wass, hefur gefið í skyn að Harris hafi litið á sig sem „ósnertanlegan“. Jafnframt lýsti hún honum sem „öfugugga“ sem hafði sýnt „afbrigðilega kynferðislega hegðun“ gagnvart fórnarlömbum sínum. Jafnframt sagði Wass að Harris ætti sér „myrka hlið.“

Misnotaði vinkonu dóttur sinnar

Réttarhöldin beindust aðallega að einu fórnarlambi Harris, sem var vinkona dóttur hans, Bindi. Því er haldið fram að Harris hafi misnotað hana í sex ár eða frá því að hún var 13 ára þar til hún var 19 ára. Harris neitaði að hafa átt í kynferðislegu sambandi við stúlkuna áður en hún var 16 ára gömul, en sagði að þau hafi átt í kynferðislegu sambandi eftir það með hennar samþykki. 

Konan tjáði sig í réttarhöldunum í gegnum lögfræðing sinn. Hún sagði að misnotkunin af hálfu Harris hafi haft skaðleg áhrif á líf hennar. Jafnframt sagði hún að henni þætti hún vera einskis virði. „Þegar ég var ung stefndi ég á að vera með minn eigin feril og eignast fjölskyldu. Hinsvegar hef ég aldrei getað gert það vegna þess sem hvílir á mér. Það sem hann gerði mér ásækir mig.“

Jafnframt segir hún að misnotkunin hafi gert hana að alkóhólista. „Þeir sem voru nánir mér skildu aldrei af hverju ég drakk svona mikið. Það var ekki fyrr en ég sagði þeim hvað Rolf hafði gert.“

Sér til málsbóta sagði Harris einfaldlega að hann væri snertigjarn en neitaði fyrir að það væri eitthvað kynferðislegt. Hann kallaði ásakanirnar jafnframt fáránlegar. Í vitnastúkunni minnti Harris jafnframt kviðdóminn á farsælan feril sinn og talaði um plötur sínar og jafnvel söng lagstúf úr einu lagi, „Jake the Peg“. 

„Þú hefur ekki sýnt neina iðrun“

Harris var dæmdur í fimm ára og níu mánaða fangelsi í dag. Samkvæmt frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar sagði dómarinn meðal annars, „Þú hef­ur ekki sýnt neina iðrun. Orðspor þitt er ónýtt, þú ert án alls heiðurs en þú get­ur eng­um kennt um nema þér sjálf­um.“ Einnig sagði hann að Harris hafi mis­notað aðstöðu sína og valda­stöðu. Hann hafi í skjóli frægðar sinn­ar og ald­urs brotið á börn­un­um.

Rolf Harris mætti í dómssal í morgun.
Rolf Harris mætti í dómssal í morgun. NIKLAS HALLE'N
Harris ásamt konu sinni Alwen og dóttur þeirra Bindi. Þær …
Harris ásamt konu sinni Alwen og dóttur þeirra Bindi. Þær hafa staðið með Harris í dómsal. NIKLAS HALLE'N
Harris var þekktur fyrir barnaefni sitt á BBC.
Harris var þekktur fyrir barnaefni sitt á BBC. Skjáskot af Youtube
Skjáskot af Youtube
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka