Harris í fangelsi í fimm ár

Rolf Harris.
Rolf Harris. AFP

Ástralski barnaníðingurinn Rolf Harris iðrast einskis. Hann var í dag dæmdur í fimm ára og níu mánaða fangelsi fyrir að brjóta gegn fjórum ungum stúlkum.

Harris var vinsæll skemmtikraftur og bjó lengi í Bretlandi þar sem hann braut m.a. gegn stúlkunum fjórum. 

Hann er nú 84 ára en brotin framdi hann á árunum 1986-1968. Eitt fórnarlamb hans var aðeins sjö ára gamalt er hann beitti það kynferðislegu ofbeldi. Hinar stúlkurnar voru 14-19 ára er hann braut gegn þeim. Ein þeirra var besta vinkona dóttur hans.

„Þú hefur ekki sýnt neina iðrun,“ sagði dómarinn er hann kvað upp dóm sinn í London í dag. „Orðspor þitt er ónýtt, þú ert án alls heiðurs en þú getur engum kennt um nema þér sjálfum,“ hefur Sky-sjónvarpsstöðin eftir dómaranum.

Dómarinn segir að Harris hafi misnotað aðstöðu sína og valdastöðu. Hann hafi í skjóli frægðar sinnar og aldurs brotið á börnunum.

Réttarhöldin yfir Harris stóðu í sjö vikur. Saksóknarinn segir að Harris hafi haft mjög dökka hlið, hann hafi verið nokkurs konar „Jekyll og Hyde“.

Nú er talið að Harris hafi fylgt Jimmy Savile, sjónvarpsmanninum fræga og barnaníðingnum, í heimsóknir á geðsjúkrahús í Bretlandi. Talið er að þar hafi þeir m.a. horft á unglingsstúlkur afklæðast og baða sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert