Lögreglumaður í Kaliforníu í Bandaríkjunum er sakaður um að hafa kýlt konu ítrekað í höfuð og andlit sem hann hafði náð að yfirbuga við hraðbraut í ríkinu. Myndband hefur verið birt á YouTube sem sýnir meinta árás og segjast lögregluyfirvöld í Kaliforníu hafa hafið rannsókn.
Í myndbandinu sést lögreglumaðurinn sitja klofvega yfir konunni og slá hana að minnsta kosti 11 sinnum. Fjallað er um málið á vef breska útvarpsins.
Lögreglan segir að það hafi reynst nauðsynlegt að halda aftur af konunni sem bæði ógnaði sínu eigi lífi og lífi annarra ökumanna með því að ganga eftir hraðbrautinni sem er vestur af borginni Los Angeles.
Annar ökumaður, David Tiaz, tók upp myndbandið. Hann segir í samtali við CBS-fréttastöðina í Los Angeles að umræddur lögreglumaður hafi kýlt hana.
„Ef þú horfir á myndskeiðið þá sérðu 15 högg. Þau lentu á höfði hennar, og við erum ekki að tala um létt högg. Þetta eru þung höfuðhögg. Kraftmikil. Virkilega kraftmikil högg. Þetta er fáránlegt í mínu augum,“ segir Tiaz, sem bætir því við að hann trúi því ekki að lögreglan hefði getað tekði á málinu með öðrum hætti.
Lögreglumaðurinn sem er sakaður um verknaðinn hefur verið leystur tímabundið frá störfum á meðan mál hans er til rannsóknar.