Einum helsta leiðtoga tatara á Krímskaga, Refat Chubarov, hefur verið meinað að snúa aftur til Krímskaga. Hann má ekki fara til héraðsins fyrr en árið 2019.
„Mér líður eins og allt ríkið hafi lýst yfir stríði við mig,“ sagði hann í samtali við AFP og bætti við: „Þetta er aðeins lítill hluti af því mikla óréttlæti sem á sér nú stað á Krímskaga.“
Eins og kunnugt er innlimuðu stjórnvöld í Rússlandi Krímskaga í febrúarmánuði. Rússnesk stjórnvöld hafa einnig meinað öðrum leiðtoga tatara, Mustafa Dzhemilev, að koma í héraðið næstu fimm árin.
Íbúar Krímar eru um 2,3 milljónir og skiptast í þrjá meginhópa: Úkraínumenn í norðurhlutanum, Rússa í suðurhlutanum og á milli þeirra eru tatarar sem tala tyrkneskt mál og eru múslimar. Samkvæmt manntali frá árinu 2001 eru Rússar um 58% íbúa Krímskaga, 24% Úkraínumenn og 12% eru tatarar.
Talið er að tatarar séu nú yfir tíu milljónir og flestir þeirra búa í Rússlandi, Úkraínu, Póllandi, Búlgaríu og Kína. Í Rússlandi búa um 5,5 milljónir tatara, þar af tvær milljónir í Tatarstan.
Tatarar eru mjög andsnúnir sameiningu við Rússland. Þeir minnast þess þegar Jósef Stalín flutti marga þeirra nauðungarflutningum í austurhéruð Sovétríkjanna í seinni heimsstyrjöldinni.
Þeir sniðgengu kosningarnar um innlimun Krímskagans í febrúarmánuði.