Stal þyrlufyrirtækið sjúkraskýrslunni?

Michael Schumacher
Michael Schumacher AFP

Svissneska lögreglan rannsakar nú þarlenda þyrluþjónustu í tengslum við tilraun til þess að selja læknaskýrslur ökuþórsins Michael Schumacher.

Schumacher, 45 ára, var þann 16. júní fluttur af sjúkrahúsi í Grenoble, þar sem hann hefur dvalið frá skíðaslysinu í desember, til Lausanne í Sviss. Samkvæmt frétt BBC var hann fluttur með sjúkrabíl, en þyrlufyrirtækið sem nú er rannsakað annaðist skipulagningu flutningsins.

Michael Schumacher er með mikla höfuðáverka eftir slysið en hann vaknaði úr dái í síðasta mánuði eftir að hafa verið haldið sofandi í öndunarvél frá slysinu.

Talskona hans, Sabine Kehm, sagði í síðasta mánuði að læknaskýrslu hans hefði verið stolið og reynt að selja hana. Kehm varaði þjófana við því að um saknæmt athæfi væri að ræða og ef upplýsingarnar yrðu birtar opinberlega yrði viðkomandi saksóttur.

Í frétt BBC kemur fram að læknaskýrslan sem læknir hans í Grenoble skrifaði sé einungis nokkrar blaðsíður. Var reynt að selja hana á 50 þúsund evrur. 

Bæði franskir og svissneskir fjölmiðlar greina frá því í dag að saksóknari í Grenoble fari nú yfir tölvu sem skráð er á þyrlufyrirtækið, en fyrirtækið fékk læknaskýrsluna senda í tengslum við flutninginn á Schumacher til Lausanne.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert