Hópur valdamikilla breskra barnaníðinga framdi „verstu brot sem hugsast geta“ gegn börnum. Ofbeldið stóð áratugum saman. Í hópnum voru þingmenn og ráðherrar, að minnsta kosti tuttugu talsins. Þessu heldur Peter McKelvie fram, en hann hefur lengi barist fyrir réttindum barna og urðu fyrirspurnir hans um málið m.a. til þess að lögreglan hóf rannsókn árið 2012. Fleiri hafa tekið undir með McKelvie og ýmislegt bendir til þess að málin hafi verið þögguð niður á sínum tíma.
Ríkisstjórn Davids Cameron forsætisráðherra hefur ákveðið að láta rannsaka ásakanir um barnaníð stjórnmálamannanna. Meðal þess sem rannsakað verður er hvers vegna fjöldi skýrslna sem gerðar voru um meint barnaníð þeirra á áttunda og níunda áratugnum finnst hvergi, þó að ljóst sé að þær hafi verið afhentar innanríkisráðuneytinu. Fyrir rannsóknarnefndina verða m.a. kallaðir starfsmenn ráðuneytisins.
Sögusagnir um barnaníð þingmanna og ráðherra hafa lengi verið á kreiki. Nú, þegar mál Rolfs Harris og Jimmys Savile eru komin fram í dagsljósið, hefur umræða um þetta blossað upp aftur. Ljóst er að árið 1983 var þingmanninum Geoffrey Dickens falið að taka saman upplýsingar um málið. Hann sagðist á sínum tíma hafa skilað skýrslum sínum, sem voru yfir 100 talsins, til innanríkisráðuneytisins. Ráðuneytið hefur hins vegar upplýst að hvorki finnist tangur né tetur af skýrslunum í skjalasafni þess. Þeim hafi annaðhvort verið eytt eða þær týnst. Í skýrslunum var m.a. fjallað um starfsmann Buckingham-hallar og þingmenn. Dickens er nú látinn.
Rannsóknin sem nú verður gerð verður tvískipt.
Theresa May, innanríkisráðherra Bretlands, segir að til að byrja með verði gerð ýtarleg rannsókn, sambærileg þeirri sem fór fram á Hillsborough-slysinu. Í sérstakri rannsóknarnefnd munu óháðir sérfræðingar eiga sæti. Í öðrum hluta rannsóknarinnar verður kannað hvernig hið opinbera, lögregla og stjórnsýslan, fór með upplýsingar um málin sem til þess komu.
Þegar formaður rannsóknarnefndarinnar hefur verið valinn verður m.a. ákveðið hvort meint fórnarlömb mannanna komi fyrir nefndina.
McKelvie barðist áratugum saman fyrir velferð barna og starfaði m.a. fyrir hið opinbera að þeim málum. Í kjölfar yfirlýsinga ríkisstjórnarinnar sagði hann í samtali við BBC að hann teldi að sönnunargögn væru fyrir hendi um að hópur fyrrverandi stjórnmálamanna hefði tengst neti barnaníðinga. Hann telur að um 20 stjórnmálamenn tengist málinu og að mun fleiri hafi vitað um þennan félagsskap en ekki sagt frá. Hann segir að sumir þessara manna séu nú látnir.
McKelvie segist hafa rætt við fórnarlömb mannanna í gegnum árin. Hann segir að níðingarnir hafi aðallega brotið gegn drengjum sem hafi verið „færðir á milli staða eins og kjötstykki“. Hann segir þá hafa þurft að þola „verstu tegund“ ofbeldis, m.a. nauðgun.
Fyrir nokkrum árum kom McKelvie að því að upplýsa um barnaníð Peters Righton, en sá hafði starfað við barnavernd í Bretlandi. Hann kom hins vegar m.a. að stofnun hóps sem vildi gera kynlíf fullorðinna og barna löglegt (e. Paedophile Information Exchange) og síðar komst upp að hann flutti inn barnaklám.
McKelvie segir við BBC að við rannsókn þess máls hafi miklum gögnum verið aflað um barnaníðshringinn. Ekkert var þó gert með það fyrr en hann vakti athygli lögreglunnar á því árið 2012 að á lögreglustöðinni í West Marcia væru sjö kassar af gögnum um barnaníðingana. Meðal gagna voru bréf sem barnaníðingarnir höfðu sent sín á milli.
Málið var m.a. tekið upp á breska þinginu er McKelvie hafði vakið athygli Toms Watson, þingmanns Verkamannaflokksins, á því.
Samkvæmt upplýsingum BBC hafa mál stjórnmálamannanna annað slagið komið upp, m.a. í rannsóknum heilbrigðisráðuneytisins á barnaheimilum. Það gerðist m.a. snemma á tíunda áratugnum.
Hér má sjá samantekt BBC á helstu staðreyndum málsins.