Ráðuneytisstjóri breska innanríkisráðuneytisins segir að 114 skýrslum um meinta barnaníð stjórnmálamanna á níunda og tíunda áratugnum hafi „líklega verið eytt.“
Ráðuneytisstjórinn, Mark Sedwill, sat í dag fyrir svörum þingnefndar um málið en nefndin reynir að komast að því hvað varð um skýrslurnar sem unnar voru á sínum tíma og sendar ráðuneytinu.
Sedwill segir að engar skýrslur frá þessum tíma finnist í skjalasafni ráðuneytisins. Hann segist „hafa áhyggjur“ vegna týndu skýrslnanna en segist enga vitneskju hafa um hver fyrirskipaði eyðingu þeirra.
Í frétt Sky-fréttastofunnar kemur fram að hann hafi sagt nefndinni að rannsókn væri hafin á því innan ráðuneytisins hvað hafi orðið um skýrslurnar. Málið snýst um meint barnaníð fjölda stjórnmálamanna, m.a. þingmanna og ráðherra.
Innanríkisráðherra Bretlands hefur skipað Butler-Sloss barónessu formann rannsóknarnefndar sem á að komast að því hvernig farið var með upplýsingar um meint barnaníð stjórnmálamanna sem bárust m.a. lögreglu og stjórnsýslunni á sínum tíma. Butler-Sloss er vön slíkri rannsóknarvinnu en hún fór m.a. fyrir rannsókn í tengslum við andlát Díönu prinsessu og unnusta hennar, Dodis Fayeds.
Hópur valdamikilla breskra barnaníðinga framdi „verstu brot sem hugsast geta“ gegn börnum. Ofbeldið stóð áratugum saman. Í hópnum voru þingmenn og ráðherrar, að minnsta kosti tuttugu talsins. Þessu heldur Peter McKelvie fram, en hann hefur lengi barist fyrir réttindum barna og urðu fyrirspurnir hans um málið m.a. til þess að lögreglan hóf rannsókn árið 2012. Fleiri hafa tekið undir með McKelvie og ýmislegt bendir til þess að málin hafi verið þögguð niður á sínum tíma.
Frétt mbl.is: Fóru með drengi eins og kjötstykki