Schumacher sýnir framfarir

Michael Schumacher
Michael Schumacher AFP

Corinna Schumacher, eiginkona Michaels Schumachers, segir að líðan eiginmanns síns sé betri og þær framfarir sem hann hafi sýnt lofi góðu. Þetta er í fyrsta skipti sem hún tjáir sig opinberlega um líðan  Schumachers frá því hann slasaðist alvarlega á skíðum í desember.

Hún segir í viðtali við þýska vikuritið Neue Post að ástand hans sé að batna. Að sjálfsögðu sé um hægan bata að ræða en engu að síður framfarir. Telegraph greinir frá þessu í dag. 

Schumacher, sem er 45 ára, var 170 daga á sjúkrahúsi í Grenoble í Frakklandi eftir að hann fékk alvarlega höfuðáverka á skíðum í Meribel í desember. Hann var í dái nánast allan tímann og léttist um 20 kg. 

Í síðasta mánuði var ökuþórinn fluttur af sjúkrahúsinu í Grenoble til Lausanne í Sviss þar sem hann er í endurhæfingu en lækningastöðin, sem hann dvelur á, sérhæfir sig í meðferð þeirra sem hafa orðið fyrir höfuðáverkum.

Upplýsingafulltrúi hans sagði á þeim tíma að endurhæfingin myndi taka langa tíma en fjölskylda Schumachers, eiginkona og tvö börn, búa þar skammt frá.

Þá kom fram að Schumacher brygðist við rödd konu sinnar og sagði í frétt Bild að rödd Corinnu hefði miklu meiri áhrif á hann en nokkrar aðrar raddir sem hann heyrði.

Mikið hefur verið rætt um framtíðarhorfur ökuþórsins og að sögn svissneska læknisins Erichs Riederers, sem sérhæfir sig í höfuðáverkum, eru litlar líkur á að Schumacher nái fullum bata. „Hann verður sjúklingur allt sitt líf og mun alltaf þurfa að reiða sig á aðstoð annarra,“ sagði Riederer í viðtali við fréttavefinn 20 Minuten.

Corinna Schumacher (C
Corinna Schumacher (C PHILIPPE DESMAZES
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert