Ítalska skemmtiferðaskipið Costa Concordia flýtur nú loks á ný en það strandaði við eyjuna Gigli í janúar árið 2012. Síðan þá hefur skipið setið fast og er orðið mjög illa farið af ryði. Í flókinni aðgerð sem miðar að því að flytja skipið loks af strandstað hefur tekist að koma því á flot.
„Skipið flýtur. Við erum mjög ánægð með aðgerðina hingað til,“ segir Franco Porcellacchia, yfirverkfræðingur björgunaraðgerðarinnar.
Costa Concordia er 114.500 tonn að þyngd. í september var því komið á fleka við sjávarbotninn og dregið stutt frá ströndinni. En nú er komið að stóru stundinni: Að koma því af strandstað.
Börn í sundfötum og með ís í hendi voru meðal þeirra sem fylgdust með aðgerðinni í morgun. Skipið flaut svo með hjálp stórra geyma sem gegndu hlutverki björgunarkúta.
Fjöldi fjölmiðlamanna er saman kominn til að fylgjast með aðgerðunum.
Costa Concordia strandaði aðfaranótt 13. janúar árið 2012. 32 létust í slysinu.
Skipið verður rifið niður og notað í brotajárn.