Hamas-samtökin hafa hafnað því að taka þátt í vopnahléi sem Egyptar lögðu til að ætti að hefjast klukkan sex í fyrramálið. „Vopnahléi án þess að náðst hafi samningar er hafnað, menn leggja ekki niður vopn og semja í kjölfarið,“ sagði Fawzi Barhum, talsmaður Hamas-samtakanna.
Eldflaugaárásir á báða bóga hafa staðið yfir í allan dag og síðustu fregnir herma að 189 Palestínumenn séu látnir og vel á annað þúsund særðir, en það er eftir árásir undanfarna sex daga.
Mahmud Abbas, forseti Palestínu, hitti utanríkisráðherra arabaríkjanna á fundi í Kaíró í Egyptalandi í dag þar sem lagt var til að vopnahlé yrði gert.
Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, hefur einnig hvatt Ísraelsmenn til þess að hætta við fyrirhugaða innrás af landi.