Elizabeth Butler-Sloss, barónessa og fyrrverandi dómari, hefur sagt af sér sem formaður rannsóknarnefndarinnar sem á að komast að því hvernig farið var með upplýsingar um meint barnaníð stjórnmálamanna sem bárust m.a. lögreglu og stjórnsýslunni á sínum tíma. Aðeins vika er liðin frá því að hún var skipuð formaður.
Theresa May, innanríkisráðherra Bretlands, skipaði Butler-Sloss sem formann nefndarinnar í síðustu viku. Butler-Sloss hefur víðtæka reynslu af slíkum störfum, en hún leiddi meðal annars rannsóknarnefndina sem rannsakaði andlát Díönu prinsessu og ástmanns hennar, Dodi Fayed. Butler-Sloss hefur hins vegar hlotið mikla gagnrýni frá fyrsta degi vegna mikilla tengsla við embættismennina sem hún átti að rannsaka. Til að mynda var bróðir hennar, Michael Havers, ríkissaksóknari þegar upplýsingarnar um barnaníð stjórnmalamannanna komu fyrst upp.
Fram hafa komið upplýsingar um að bróðir hennar hafi á sínum tíma sem ríkissaksóknari ákveðið að ákæra ekki Peter Haymann, fyrrverandi diplómata, fyrir barnaníð þrátt fyrir að búa yfir upplýsingum um ódæðið. Butler-Sloss segist ekki hafa vitað um þátt bróður síns í málinu.
Sjá frétt The Telegraph