Alice Coachman látin

Alice Coachman Davis á Ólympíuleikunum í London.
Alice Coachman Davis á Ólympíuleikunum í London.

Bandaríska íþróttakonan Alice Coachman Davis, fyrsta svarta konan sem fékk gullverðlaun á Ólympíuleikum, er látin, 90 ára að aldri.

Davis var frjálsíþróttakona og fékk gullverðlaun í hástökki á Ólympíuleikunum í London árið 1948. Hún lést í gær í Georgíu-ríki, eftir að hafa fengið heilablóðfall.

Á árunum 1939-1948 vann hún tíu titla í hástökki utandyra í heimalandi sínu. Hún vann til fjölda annarra verðlauna á ferli sínum.

Davis var einnig spretthlaupari og sigraði ítrekað í 50 m hlaupum á árunum 1943-1947 sem og í 100 m hlaupum. 

Árið 1948 var það sjálfur konungur Bretlands, Georg VI. sem veitti henni Ólympíugullið. Setti Davis bæði Bandaríkja- og ólympíumet á leikunum er hún stökk yfir 1,68 metra.

Formaður bandarísku ólympíunefndarinnar segir að afrek Davis á íþróttasviðinu segi þó aðeins hálfa söguna. „Alice Coachman Davis hefur veitt kynslóð íþróttamanna innblástur og hennar verður sárt saknað.“

Davis gerði sér grein fyrir því að hún væri fyrirmynd annarra, sérstaklega annarra svartra kvenna í íþróttum. Í viðtali við New York Times árið 1996 sagði hún: „Ef ég hefði farið á Ólympíuleikanna og mér mistekist, hefði enginn getað fylgt í mín fótspor.“

Eftir að Davis hætti að keppa tók hún til við að þjálfa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert