Ítalska skemmtiferðaskipinu Costa Concordia var komið á flot í gær í fyrsta skipti frá því að það steytti á skeri og lagðist á hliðina 13. janúar 2012.
Skipinu var lyft um tvo metra af palli sem það lá á eftir að því var komið á réttan kjöl í einni af umfangsmestu björgunaraðgerðum sögunnar. Þegar skipið var komið á flot var það dregið kippkorn frá ströndinni þar sem viðgerð verður haldið áfram í sex eða sjö daga áður en það verður dregið til heimahafnar í Genoa og rifið niður í brotajárn. Gert er ráð fyrir að skipið verði komið þangað fyrir lok mánaðarins. Áætlað er að björgunaraðgerðin og niðurrifið kosti sem svarar rúmum 230 milljörðum króna.
Skipið var meira en tvisvar sinnum stærra en Titanic og með 4.229 farþega og skipverja þegar það steytti á skeri við eyjuna Giglio í Toscana. 32 fórust í slysinu.