Kosinn forseti framkvæmdastjórnar

Jean-Claude Juncker, nýkjörinn forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Jean-Claude Juncker, nýkjörinn forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Mynd/AFP

Jean-Claude Juncker frá Lúxemborg var í dag kjörinn forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á Evrópuþinginu. Juncker er fram­bjóðandi EPP, þing­flokks mið- og hægrimanna á þinginu, sem hlaut flesta þing­menn í kosn­ing­un­um til þings­ins í vor.

Hlaut Juncker 422 af 729 atkvæðum í leynilegri atkvæðagreiðslu Evrópuþingmannanna. Tekur hann við embættinu í nóvember af Portúgalanum Jose Manuel Barroso sem gegnt hefur embættinu undanfarin ár. Til þess að ná kjöri þurfti hann 376 atkvæði. 250 atkvæði féllu gegn honum, 47 sátu hjá og 10 seðlar voru ógildir. 

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fer með veigamikið hlutverk. Hún semur löggjöf, fylgist með fjárlögum aðildarríkjanna, sér til þess að sáttmálar sambandsins komi til framkvæmda og sér um gerð alþjóðlegra viðskiptasamninga. 

Í ræðu sinni á þinginu fór hann yfir þau verkefni sem hann telur brýnust fyrir sambandið. Vill hann að evruríkin geri sameiginlega fjárhagsáætlun, aðskilda frá fjárhagsáætlun Evrópusambandsins. Með því sé hægt að hjálpa evruríkjunum að gera nauðsynlegar umbætur á löggjöf sinni. Þá telur hann að Evrópusambandið þurfi 300 milljarða evra fjárfestingaáætlun til þess að skapa störf og auka hagvöxt. 

Ekki voru allir Evrópuþingmennirnir ánægðir með kjör Junckers. Töluvert var um óróleika og frammíköll í þingsalnum þegar Juncker hélt ræðu sína áður en þingmennirnir gengu til kjörkassanna. Var það sérstaklega þegar Juncker ræddi framtíð evrunnar og málefni innflytjenda að óróleikinn jókst. 

Jean-Claude Juncker og Martin Schulz, forseti Evrópuþingsins fallast í faðma.
Jean-Claude Juncker og Martin Schulz, forseti Evrópuþingsins fallast í faðma. Mynd/AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert