Amnesty International hefur nú opinberað upplýsingar um þá sem grunur leikur á að fyrirskipi eða fremji grimmdarverkin sem hafa átt sér stað undanfarið í Mið-Afríkulýðveldinu, með það fyrir augum að krefjast réttlætis til handa þjóðinni.
Í skýrslu Amnesty International, Central African Republic: Time for Accountability, eru skráðir glæpir sem falla undir alþjóðalög, sem framdir voru á tímabilinu 2013 og 2014 um allt land. Kallað er eftir því að ódæðismennirnir sæti rannsókn, þeir verði sóttir til saka og látnir sæta refsingu. Í skýrslunni eru gefin upp nöfn vopnaðra meðlima og bandamanna anti-balaka og Séléka sem eru grunaðir um aðild að alvarlegum mannréttindabrotum, grein gerð fyrir hlutverkum þeirra og refsiábyrgð þeirra dregin upp.
„Ef Mið-Afríkulýðveldið á að geta náð sér eftir það morðæði sem hefur gengið yfir frá því í desember 2013 er mikilvægt að þeir sem skipulögðu, frömdu eða tóku þátt í stríðsglæpum, glæpum gegn mannkyni og alvarlegum mannréttindabrotum verði sóttir til saka og látnir sæta ábyrgð,“ sagði Christian Mukosa, rannsóknaraðili Mið-Afríkulýðveldisins hjá Amnesty International.
„Það má ekki skýla þeim fyrir réttvísinni sem bera ábyrgð á að láta hundruð þúsunda saklauss fólks vera berskjölduð fyrir grimmdarlegu ofbeldi. Eina leiðin til þess að stöðva þennan vítahring ofbeldis er að taka fyrir refsileysi glæpamannanna.“
Skýrslan inniheldur frásagnir fórnarlamba og vitna frá fyrstu hendi af glæpum sem brjóta gegn alþjóðalögum, og grófum mannréttindabrotum sem hafa verið framin í átökunum þar sem þúsundir hafa látist og næstum milljón manns neyðst til að flýja heimili sín.
<span>Í skýrslunni er bent á fjölda nafntogaðra leiðtoga sem hafa tekið þátt í grimmdarverkunum.</span> <span>Þeirra á meðal eru fyrrverandi forsetarnir François Bozizé og Michel Djotodia ásamt skipuleggjendum anti-balaka, þar með talinn Levy Yakété og Séléka-herforinginn Noureddine Adam.</span> <span><span>Amnesty hvetur fólk til að grípa til aðgerða og skora á Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, að beita áhrifum sínum í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna til að fjölga friðargæsluliðum á vettvangi og stöðva blóðbaðið!</span></span> <a href="http://www.netakall.is/adgerdir/mid-afrikulydveldid-timinn-er-ad-renna-ut/">Sjá nánar á vef Amnesty International</a>