Horfa á sprengingar og borða popp

Myndin sem sýnir Ísraelsmennina horfa á sprengingarnar.
Myndin sem sýnir Ísraelsmennina horfa á sprengingarnar. Skjáskot af Twitter

Mynd sem sýnir stóran hóp Ísraelsmanna fylgjast með sprengjuregninu í Gaza og borða popp hefur nú farið eins og eldur í sinu um internetið. Sá sem tók myndina er danski blaðamaðurinn Allan Sørensen sem starfar fyrir kristilegt dagblað í Mið-Austurlöndum. 

Sørensen tók myndina í bænum Sderot sem er í Suður-Ísrael og birti á Twitter-síðu sinni. Þar lýsti hann aðstæðum og kallaði myndina „Bíó í Sderot“. Jafnframt sagði hann að í hvert skipti sem heyrðist í sprengingu á Gaza klappaði fólkið.

Myndin vakti hörð viðbrögð og hefur henni verið deilt út um allan heim. Einnig hefur hún birst í bandarísku útgáfu Huffington Post, The Independent, The Jerusalem Post, Russia Today og Al Arabiya. 

Samkvæmt frétt Politiken hefur Sørensen fengið mikið af skilaboðum út af myndinni og hafa þau verið hatursfull gagnvart báðum hliðum deilunnar. Hann tjáði sig um myndina í fyrradag á samfélagsmiðlum:

„Myndin mín sem sýnir Ísraelsmenn fagna sprengingunum í Gaza hefur valdið sterkum viðbrögðum. Það sýnir að ekkert er verra fyrir Ísraelsmenn og Palestínumenn heldur en að sjá sína eigin spegilmynd og komast að því að óvinurinn horfir beint í augum á þeim. Ég hef fengið fjöldann allan af hatursfullum skilaboðum. Í sumum þeirra er mér úthúðað en að mestu er Ísraelsmönnum og Palestínumönnum úthúðað fyrir hvað þeir gera hvorir öðrum,“ segir Sørensen meðal annars.

Að mati Sørensen er það ekkert nýtt að fólki Ísrael og Palestínu fagni árásum á hvort annað og veltir því fyrir sér af hverju myndin hans hafi vakið svona mikla athygli. Tengir hann athyglina við þá staðreynd að þessi löngu átök hafa orðið til þess að fólkið lítur ekki hvert á annað sem manneskjur. Það er þess vegna sem fólkið getur horft á og borðað popp á meðan annað fólk er að missa heimili sín og jafnvel líf í sprengiárásum.

Tíst Sørensen má sjá hér að neðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert