Hundruð reiðra foreldra fóru inn í skrifstofur einkaskóla í indversku borginni Bangalore í dag í kjölfar fregna um að tveir starfsmenn skólans hefðu nauðgað sex ára nemanda.
Tveir karlmenn, íþróttakennari og aðstoðarmaður hans, hafa verið handteknir eftir að foreldrar fórnarlambsins vöktu athygli lögreglu á málinu. Þeir segja að dóttur þeirra hafi verið nauðgað í skólanum.
Lögreglan segir ennfremur að stúlkan hafi sagt kennara frá ofbeldinu en að skólinn hafi ekki látið foreldrana vita og að þeir hafi ekki komist að því fyrr en viku seinna er hún sagði þeim loks sjálf frá því.
Mikil reiði hefur gripið um sig meðal foreldra vegna málsins og krefjast þeir svara frá stjórnendum skólans. Þeir segja stjórnendurna hafa reynt að þagga málið niður. Foreldrarnir brutu niður hlið við inngang skólans og brutu rúður.
Formaður stjórnar skólans segir að skólinn vinni með lögreglu að rannsókn málsins.
„Við erum ekki að hlífa þeim sem sakaðir eru um þetta. Við vinnum með lögreglunni í málinu. Við höfum afhent upptökur úr eftirlitsmyndavélum. Ef þeir verða fundnir sekir verða þeir hengdir,“ segir formaðurinn.