Lést eftir hengingartak lögreglu

Eric Garner deilir við lögreglumennina áður en átökin hefjast.
Eric Garner deilir við lögreglumennina áður en átökin hefjast. Skjáskot

Rannsókn er hafin á aðgerðum lögreglumanns sem tók 43 ára bandarískan karlmann hengingartaki á gangstétt í Tompkinsville á Staten-eyju í New York á fimmtudag. Maðurinn, sem var óvopnaður, hafði deilt við lögreglumenn sem sökuðu hann um að selja ólöglegar sígarettur.

Atburðurinn var tekinn upp á myndband og má sjá þegar lögreglumaðurinn Daniel Pantaleo tekur Eric Garner svonefndu hengingartaki eftir rifrildi þeirra. Þá má sjá Garner berjast fyrir lífi sínu og heyrist hann segja að hann geti ekki andað.

Bill de Blasio, borgarstjóri New York, gaf út yfirlýsingu eftir andlát Garner. Í henni vottar hann aðstandendum Garners samúð sína og segir að þeir sem handteknir eru að af lögreglu eigi að vera öruggir í höndum lögreglumanna. „Við vinnum að því að safna saman öllum gögnum um þennan atburð og verður hann rannsakaður í þaula.“

Þá sagði William Bratton lögreglustjóri New York að hengingartök eins og það sem Pantaleo beitti væru ekki á meðal þess sem lögreglumönnum væri heimilt að beita.

Myndbandið má sjá hér að neðan: 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert