Þvertaka fyrir aðild Rússlands

Frá slysstaðnum í Austur-Úkraínu.
Frá slysstaðnum í Austur-Úkraínu. BULENT KILIC

Samkvæmt rússneskum gögnum flaug úkraínsk orrustuþota að malasísku farþegaþotunni MH17 rétt áður en hún hrapaði á fimmtudaginn. Þetta kom fram í erindi tveggja háttsettra rússneskra embættismanna í Moskvu í dag. Jafnframt kom fram að stjórnvöld í Kænugarði hafi notað ratsjárbúnað, sérstaklega hannaðan fyrir flugskeyti, á degi hrapsins. 

Embættismennirnir notuðust við glærur, línurit og myndir til þess að sýna fram á að rússnesk yfirvöld tengdust hrapi farþegaþotunnar á engan hátt. 

Stjórnvöld í Moskvu hafa einnig þverneitað að hafa veitt úkraínskum aðskilnaðarsinnum hliðhollum Rússum aðgang að Buk-flugskeytakerfi eða öðrum vopnum.

Margar háværar raddir, meðal annars frá bandarískum rannsóknaraðilum, hafa ásakað Rússland um að bera ábyrgð á harmleiknum í Úkraínu í síðustu viku, þar sem 298 farþegar farþegaþotu Malaysian Airlines létust er þotan var skotin niður. 

Rússneski liðsforinginn Andrei Kartopolov, sem tók þátt í erindinu í dag, sagði að malasíska þotan hafi ráfað um 14 km norður fyrir áætlaða leið sína. Jafnframt sagði hann að úkraínsk orrustuþota að gerðinni SU-25, sem er vanalega vopnuð loftskeytum, hafi verið nálægt Boeingþotunni áður en hún hrapaði. 

Kartopolov sagði einnig að samkvæmt rússneskum gögnum hafði fjarlægðin á milli farþegaþotunnar og orrustuþotunnar verið um þrír til fimm kílómetrar. 

„Af hverju var orrustuþotan að fljúga svona nálægt farþegaþotunni?“ spurði Kartopolov. „Við viljum fá svar við þeirri spurningu.“

Kartopolov hélt því einnig fram að varnarmálaráðuneyti Rússlands hafi orðið vart við óvanalega starfsemi frá ratsjárstöðvum sem notaðar eru til að stjórna loftskeytum daginn sem þotan hrapaði. 

Jafnframt þvertók hann fyrir aðild Rússlands að hrapinu. „Ég vil leggja áherslu á að Rússland útvegaði aðskilnaðarsinnunum ekki Buk-flugskeytakerfið eða önnur vopn eða hernaðarbúnað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert