Torveldaði rannsókn á Boston-sprengingunum

Sprengjusveitarmenn leita af sér allan grun eftir sprengingarnar í fyrra.
Sprengjusveitarmenn leita af sér allan grun eftir sprengingarnar í fyrra. AFP

Dómstóll í Bandaríkjunum sakfelldi í dag Azamat Tazhayakov fyrir að hafa torveldað lögreglurannsókn á hryðjuverkunum í Boston-maraþoninu í fyrra.

Tazhayakov var náinn vinur Dzhokhars Tsarnaev sem er grunaður um að standa að baki tilræðinu. Stuttu eftir sprengingarnar faldi hann bakpoka, flugelda og fartölvu Tsarnaevs fyrir lögreglu er hún rannsakaði málið, en þeir deildu herbergi í heimavistarskóla.

Hann á yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsisvist fyrir athæfið, en hann ber fyrir sig að annar maður hafi falið sönnunargögnin. Sérfræðingar telja þó að Tazhaykov geti verið framseldur til heimalands síns Kazakhstan áður en hann hefur afplánun sína. 

Tazhayakov er fyrstur í röð þriggja nemenda sem sakaðir eru um að torvelda rannsókn lögreglunnar í því skyni að hylma yfir Tsarnaev á meðan hann flúði undan bandarísku alríkislögreglunni (FBI).

Í hryðjuverkunum 15. apríl 2013 sprungu tvær sprengjur við endamark hlaupsins. Þrír létust og 264 særðust í tilræðinu, sem talið er að hafi verið skipulagt af bræðrunum Dzhokhar og Tamerlan Tsarnaev. Lögreglan varð Tamerlan að bana stuttu eftir árásirnar en bróðir hans fannst á flótta stuttu síðar. Hann verður saksóttur í nóvember í 30 ákæruliðum, en hann á dauðarefsingu yfir höfði sér verði hann sakfelldur.

Dzhokhar Tsarnaev á yfir höfði sér dauðarefsingu verði hann sakfelldur. …
Dzhokhar Tsarnaev á yfir höfði sér dauðarefsingu verði hann sakfelldur. Réttarhöld yfir honum fara fram í nóvember. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert