Illa farið lík ferjueigandans fundið

Suðurkóreska lögreglan greindi frá því í dag að búið væri að bera kennsl á lík sem fannst í síðasta mánuði, og reyndist það vera auðjöfur sem verið hafði á flótta undan lögreglu, en hann átti farþegaferjuna sem sökk í apríl með þeim afleiðingum að 300 létu lífið, flestir börn.

Umfangsmikil leit hafði verið gerð að Yoo Byung-Eun mánuðum saman, sem tugþúsundir lögreglu- og hermanna tóku þátt í. Líkið fannst fyrir tæpum sex vikum, 12. júní, liggjandi á akri utan við borgina Suncheon um 300 km frá Seúl.

Það var íbúi á svæðinu sem gekk fram á rotnandi líkið. Ítarlegar rannsóknir þurfti til að staðfesta hver væri á ferðinni og var það loks gert bæði með DNA-prufu auk þess sem unnt var að ná fingrafari af öðrum vísifingri Yoos.

Lögreglustjórinn í Suncheon, Woo Hyung-Ho, segir að líkið hafi verið of illa farið til að unnt væri að greina dánarorsök og -stund. Hins vegar hafi nokkrar tómar áfengisflöskur verið á vettvangi, auk sjálfsævisögu sem Yoo skrifaði á 10. áratugnum. „Við vitum ekki hvort þetta var morð eða sjálfsvíg,“ sagði lögreglustjórinn við fjölmiðla.

Vanhæfni, spilling og græðgi

Yoo var aðaleigandi fjölskyldufyrirtækisins Chongaejin Marine Co., sem átti og rak Sewol-farþegaferjuna sem sökk 16. apríl. Um borð voru 476, þar af 325 gagnfræðaskólabörn. Enn er unnið að því að ná öllum líkum úr ferjunni af hafsbotni. Tala látinna stendur nú í 294, en 10 lík hafa ekki fundist.

Stórslysið var algjört áfall fyrir suðurkóreskt samfélag og vakti gríðarlega reiði þegar í ljós kom að vanhæfni, spilling og græðgi höfðu haft sitt að segja um hversu manntjónið varð mikið.

Yoo var stefnt stuttu eftir að ferjan sökk, en neitaði að gefa sig fram við lögreglu og lagði á endanum á flótta undan réttvísinni. 500 milljón won, tæpir 500 þúsund Bandaríkjadalir, voru sett til höfuðs honum sem og 100 won til höfuðs elsta syni hans, sem enn er á flótta.

Eins og gjarnan vill verða eru samsæriskenningar komnar á kreik, því vegna þess hve illa farið líkið er neita sumir að trúa því að Yoo sé í raun dáinn. Þar á meðal eru meðlimir evangelísks sértrúarsöfnuðar sem faðir hans stofnaði og hann var í forsvari fyrir. Talsmaður kirkjunnar segist telja að lögreglan setji þetta fram sem blekkingaleik til að lokka manninn úr felum.

Höfnin í Jindo, þar sem fjölskyldur fórnarlamba Sewol ferjuslyssins sem …
Höfnin í Jindo, þar sem fjölskyldur fórnarlamba Sewol ferjuslyssins sem enn hafa ekki fundist bíða enn eftir að fá lík ástvina sinna í hendur. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert