Fleiri en fimmtíu manns um borð í farþegaflugvél TransAsia létust þegar hún brotlenti á Penghu-eyjum í Taívan fyrr í dag. Afar slæmt veður var á svæðinu og er talið að flugstjóri vélarinnar hafi ætlað að reyna nauðlendingu. Hún hafi ekki tekist betur en svo að vélin skall harkalega til jarðar og í henni kviknaði.
Farþegaflugvélin er af gerðinni ATR 72 og voru 58 farþegar um borð, þar af fjögur börn. Hún var á leið frá Gaoxiong til Penghueyja.
Enn eru upplýsingar um slysið af skornum skammti en talið er að 51 hafi látið lífið og sjö séu alvarlega slasaðir eftir brotlendinguna.