Breski athafnamaðurinn Matthew Munson varð hlutskarpastur þegar flugferð með Avro Lancaster-sprengjuflugvél stríðsflugvélasafnsins í Hamilton í Kanada var boðin upp á uppboðsvefnum eBay. Vélinni verður millilent í Keflavík á leiðinni frá Hamilton til Coningsby í Lincolnshire.
Munson greiddi tæplega áttatíu þúsund Bandaríkjadali fyrir flugfarið sem er jafnvirði um níu milljóna íslenskra króna. Sökum þess hversu uppboðið gekk vel hefur verið ákveðið að bjóða einnig upp leiðina til baka, þ.e. frá Lincolnshire til Hamilton. Uppboðið fer fram í ágúst.
Aðeins tvær vélar af þessari tegund eru til í flughæfu ástandi og verða þær saman í ákveðnum verkefnum á Englandi áður en kanadísku vélinni verður flogið aftur til Hamilton. Á heimasíðu kanadíska safnsins kemur meðal annars fram að Avro Lancaster-vélin hafi verið ein frægasta sprengjuflugvélin í seinni heimsstyrjöldinni, en hún skipar stóran sess í sögu Bretlands í styrjöldinni.
Vélinni verður flogið frá Hamilton 4. ágúst og ráðgert er að hún lendi í Coningsby í Lincolnshire 8. ágúst eftir að hafa millilent í Goose Bay í Kanada, Narsarsuaq á Grænlandi og í Keflavík. Að lokinni skoðun á Englandi taka við sýningar og fleira. Fyrirhugað er að ferðin til baka hefjist 22. september, en í millitíðinni verður flugvélin gestur á hinum ýmsu flugsýningum.