Flugvél með 110 manns horfin

Vél frá Air Algerie.
Vél frá Air Algerie. Af Wikipedia

 Flugfélagið Air Algerie segist hafa misst samband við eina farþegavél sína um klukkustund eftir flugtak frá Burkina Faso í dag. Vélin var á leið til Alsír og um borð eru 116 manns, 110 farþegar og sex manna áhöfn. 

Samkvæmt heimildum AFP fréttastofunnar er vélin af gerðinni McDonnell Douglas DC-9. Farþegarnir eru af ýmsum þjóðernum. Að minnsta kosti 50 Frakkar eru meðal farþega.

Vélin var í lofthelgi Malí, rétt ókomin að landamærunum að Alsír, er sambandið við hana slitnaði.

Stríðsástand hefur ríkt í norðurhluta Malí mánuðum saman. 

„Vélin var ekki langt frá landamærunum að Alsír er flugmennirnir hafi verið beðnir um að breyta stefnu vegna slæms skyggnis og til að koma í veg fyrir árekstur við aðra flugvél,“ segir heimildarmaður AFP sem starfar hjá Air Algerie. Hann segir að eftir að vélin breytti um stefnu hafi allt samband við hana rofnað.

Opinberlega hefur flugfélagið aðeins sagt að samband hafi rofnað við eina af vélum félagsins, 50 mínútum eftir flugtak. Flugnúmer vélarinnar er AH5017 og flýgur hún þessa leið fjórum sinnum í viku.

Eitt mannskæðastas flugslys í sögu Alsír varð í febrúar á þesu ári er herflugvél hrapaði í vondu veðri í fjalllendi í norðausturhluta landsins. Yfir sjötíu fórust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert