Staðfest hefur verið að flugvél Air Algerie hrapaði, líklega í Sahara-eyðimörkinni. Vélin var á leið frá Burkina Faso til Alsír. 116 voru um borð, 110 farþegar og sex manna áhöfn, allt Spánverjar. Að minnsta kosti tíu börn voru meðal farþega.
Áhöfnin var starfsfólk spænska flugfélagsins Swiftair sem einnig átti vélina en leigði hana til alsírska flugfélagsins. Franskar orrustuþotur leita nú flaks vélarinnar.
Þetta hefur Reuters fréttastofan eftir alsírskum flugmálayfirvöldum.
„Ég get staðfest að vélin hrapaði,“ hefur Reuters eftir starfsmanni alsírskra flugmálayfirvalda. Samband við vélina rofnaði er hún var á flugi yfir Malí, um fimmtíu mínútum eftir flugtak. Stríðsástand hefur ríkt mánuðum saman í norðurhluta Malí.
Enn er á huldu hvað orsakaði hrapið og hvort að einhver hafi komist lífs af. Vélin er af tegundinni MD-83. Slík vél er með sæti fyrir rúmlega 160 farþega.
Vitað er að flugmenn voru í sambandi við flugumferðarstjórn í Níger og var ákveðið að breyta flugleið vélarinnar vegna veðurs. Ýmist kemur fram að það hafi verið að frumkvæði flugmannanna eða flugumferðarstjórnar.
Flugfélagið segir að 51 Frakki hafi verið meðal farþega. 27 voru frá Burkina Faso, átta frá Líbanon, sex frá Alsír, fjórir Þjóðverjar og tveir frá Luxemborg. Þá voru Belgi, Svisslendingur, Egypti, Úkraínumaður, Kamerúni, Malímaður, Nígeríumaður og Rúmeni einnig um borð.