Flest bendir til þess að fréttin sé uppspuni, um að íslamistar í Írak hafi fyrirskipað kynfæralimlestingar á öllum konum milli 11 og 46 ára aldurs í Mosul. Yfirmaður hjá Sameinuðu þjóðunum fullyrti þetta í gær, en frumheimildin var sett fram á Twitter og virðist fölsuð.
Jacqueline Badcock, sem hefur yfirumsjón með mannúðarstarfi SÞ í Írak, sagði í vídjóviðtali við blaðamenn í Genf frá því að herskáir íslamistar hliðhollir ISIS hefðu gefið út fatwa, trúarlega tilskipun, um kynfæralimlestingarnar, en þær hafa til þessa ekki tíðkast í landinu.
Skæruliðasamtökin ISIS hafa undanfarið hertekið stór landsvæði í Mið-Austurlöndum og lýst yfir stofnun s.k. kalífadæmis, eða íslamsks ríkis. Samtökin kalla sig raunar ekki lengur ISIS heldur aðeins IS, eða Islamic State. Yfirráðasvæði þeirra nær frá Aleppo í Sýrlandi til norðurhluta Íraks. Kristnar fjölskyldur hafa flúið unnvörpum til annarra borga Íraks eftir að skæruliðarnir náðu Mosul á sitt vald.
Fréttastofan Al-Jazeera segir að tilskipunin hafi fyrst verið birt á Twitter á sunnudaginn, en strax í kjölfarið hafi ýmsar vefsíður og Twitter reikningar tengdir ISIS hafnað því að þetta væri rétt. Þegar Al-Jazeera spurðist fyrir um hvort og hvenær ISIS myndi senda frá sér formlega yfirlýsingu var svar talsmannsins: „Þeir hafa annað og betra að gera við tíma sinn en að leiðrétta kjaftæðisfullyrðingar.“
BBC segir nú frá því að vangaveltur séu uppi um hvort orðrómnum um meint fatwa hafi verið komið af stað á samfélagsmiðlum til að varpa rýrð á Isis. Yfirlýsingin sem sett er fram í þeirra nafni á Twitter er sögð innihalda málfarsvillur og ekki undirrituð með réttum hætti.
Hafi það verið markmiðið virðist það hafa tekist, því fréttin um að kynfæralimlestingar væru yfirvofandi fyrir milljónir kvenna í Mosul fór eins og eldur í sinu bæði um samfélagsmiðla, þar á meðal greinilega til efstu raða Sameinuðu þjóðanna og þaðan um alla helstu fréttamiðla heims. IS samtökin eru alræmt fyrir ofstæki og hafa gerst sek um fjöldaaftökur í Írak og krossfestingar í Sýrlandi, svo mörgum reyndist auðvelt að trúa þeim til að boða limlestingar á konum.
Breska blaðið Independent ræðir við Shiraz Maher, sérfræðing í málefnum Mið-Austurlanda við Kings College í London, vegna málsins og bendir hann á að kynfæralimlestingar kvenna séu fyrst og fremst samfélagslegar, en ekki trúarlegar og séu ekki hluti af íslam sem trú. Íslamistar sem boða heilagt stríð hafa til þessa ekki látið sig kynfæralimlestingar kvenna sérstaklega varða, að sögn Maher.
Sömu sögu segir Nimco Ali, framkvæmdastjóri samtakanna Daughters of Eve, eða Dætur Evu, sem berjast gegn kynfæralimlestingum. „Þetta er siður sem snýst um að stjórna konum [...] Það hefur ekkert að gera með trú, það hefur ekkert að gera með menningu, þetta snýst um karla að sýna karlrembukjaftæði. Þeir eru hræddir um að konur öðlist mannréttindi. Ef þú talar við fólk sem segist vilja stofna íslamskt ríki, þá er það í raun að segjast vilja stofna ríki sem er stjórnað af körlum.“
Ali segir að kynfæralimlestingar njóti engrar blessunar innan íslam. „Ég óttast að fólk fari að halda að limlestingar á kynfærum kvenna séu hluti af íslam. En þetta snýst um ofbeldi gegn konum og stúlkum. Ég hef mestar áhyggjur af konum í þessum löndum, og hvernig líf þeirra verður núna. Þetta snýst ekki um trú, heldur um að menn sem nota trúarbrögð til að breiða yfir hatur sitt og fyrirlitningu á konum.“