Lýstu upplifun af kynfæralimlestingu

Konurnar ræða um reynslu sína af kynfæralimlestingu.
Konurnar ræða um reynslu sína af kynfæralimlestingu. Ljósmynd/Amnesty International

Samfélög í Síerra Leóne beita nýstárlegri nálgun við að binda enda á þá grimmilegu hefð sem limslesting á kynfærum kvenna er.

Nokkrir tugir kvenna komu saman í ríki Masungbala í Norðvestur-Síerra Leóne til að deila upplifun sinni af sársauka og hryllingi á meðan karlkyns leiðtogar samfélagsins miðluðu eigin skoðunum í öðrum hópi.

Konurnar lýstu, hver á eftir annarri, hvernig kynfæri þeirra voru skorin af sem hluti af manndómsvígslu og þeim sársauka sem þær neyddust til að þola.

Flestar þeirra sögðu að þær sæju eftir því að hafa stutt slíkar aðgerðir og væru staðráðnar í að dætur þeirra þyrftu ekki að ganga í gegnum það sama. Skammt frá sátu karlmennirnir og ræddu hvernig samfélagið gæti tekið á þessu vandamáli.

Síðan gerðist það sem enginn átti von á, segir í frétt Amnesty International um málið.

Limlestingar bannaðar hjá konum yngri en 18 ára

Eftir margra daga umræður og samningaviðræður á vinnusmiðjum Amnesty International og annarra svæðisbundinna samtaka í ágúst 2011, skrifaði samfélagið undir samkomulag þess efnis að banna limlestingu á kynfærum kvenna undir 18 ára aldri. Í samkomulaginu kemur einnig fram að hver einasta kona eldri en 18 ára verði að veita samþykki sitt áður en aðgerðin fer fram.

Um það bil 600 konum var bjargað frá limlestingu í ríki Masungbala á innan við mánuði eftir undirritun samkomulagsins.

Reynslan af vinnusmiðjunum var svo jákvæð að aðgerðasinnar á svæðinu sögðu hundruð samfélaga um allt land hafa fylgt í kjölfarið og bannað þessa skaðlegu hefð.

Þrátt fyrir að lög um réttindi barnsins frá árinu 2007 verndi börn frá skaðlegum athöfnum, þá er engin löggjöf í Síerra Leóne sem bannar sérstaklega limlestingu á kynfærum kvenna, en þessi samfélög eru góð dæmi um þá möguleika sem eru fyrir hendi, sagði Aminatou Sar, mannréttindafræðslustjóri Afríkudeildar Amnesty International.

Að rjúfa þögnina

„Síerra Leóne gæti orðið ríki sem umber ekki kynfæralimlestingar,“ er haft eftir Arun Turay, hjá félagasamtökunum Advocacy Movement Network (AMNET), í frétt Amnesty. Ásamt Amnesty International héldu samtökin úti vinnusmiðjum til að vekja tiltekin samfélög til vitundar og hvetja þau til að grípa til aðgerða gegn kynfæralimlestingu kvenna.

Verkefnið er hluti af mannréttindafræðsluverkefni Afríkudeildar Amnesty International sem nú er haldið úti í sjö samfélögum í Kambia-umdæminu í Síerra Leóne. Í brennidepli eru mannréttindamál sem snerta samfélögin á svæðinu, þar á meðal kynfæralimlesting kvenna.
„Það er mjög erfitt fyrir fólk að ræða þessi mál en þar sem sterk hefð fyrir samfélagslegum umræðum ríkir í þessum samfélögum höfum við leitað til þegna þeirra til að ræða um þær hættur sem fylgja kynfæralimlestingu kvenna“, segir Arun.

„Það kom fljótt í ljós að fólk vildi takast á við vandamálið en vissi ekki hvernig það ætti að fara að því. Þetta ferli hefur nú þegar breytt lífi fjölmargra kvenna og stúlkna.“

Arun er enn í reglulegu sambandi við þessi samfélög. „Fyrir aðeins nokkrum mánuðum sögðu leiðtogarnir mér að breytingin á þessari hefð hafi nú verið viðurkennd til fulls og að áhersla sé nú lögð á menntun stúlkna,“ segir Arun.

„Samkomulagið virkar vegna þess að flestir innan samfélagsins telja sig skuldbundna því, þar sem þeir tóku þátt í þeim umræðum sem vinnusmiðjan hrundi af stað,“ segir Arun.

140 milljónir kvenna og stúlkna

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin áætlar að allt að 140 milljónir kvenna og stúlkna um allan heim hafi sætt kynfæralimlestingu. Aðgerðin getur verið framkvæmd á hvaða aldri sem er, allt frá því skömmu eftir fæðingu og þar til konan hefur náð fullum þroska.

Konur og stúlkur sem hafa lent í því að öll ytri kynfæri séu fjarlægð þjást oftar en ekki af miklum sársauka, blæðingum, losti, erfiðleikum við þvaglát og sýkingum sem geta jafnvel leitt til dauða.

Margar þeirra þjást einnig af þrálátum sársauka, erfiðleikum við fæðingu – með aukinni hættu á mæðradauða – skorti á ánægju í kynlífi og áfallastreituröskun.

Leiðtogar og aðrir innan samfélaganna sem styðja og framkvæma kynfæralimlestingar kvenna segja að þær séu nauðsynlegar til að vernda hinn svokallaða „heiður“ kvenna. Þetta viðhorf endurspeglar útbreidda staðalímynd um kynvitund kvenna og þá trú að henni verði að stjórna. Þar að auki er sú hugmynd lífseig í sumum samfélögum að óumskornar konur séu óhreinar og þær skuli því hvorki meðhöndla mat né vatn.

Í ljósi reynslunnar í Síerra Leóne horfir Arun jákvæðum augum til framtíðar. „Það sem hefur áunnist í þeim samfélögum sem við unnum með í Síerra Leóne getur orðið að veruleika í öðrum Afríkuríkjum eða jafnvel um allan heim. Samfélagsleg umræða er öflug leið í mannréttindafræðslu og getur leitt til breytinga,“ segir hann.

Amnesty International
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin áætlar að allt að 140 milljónir kvenna og stúlkna …
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin áætlar að allt að 140 milljónir kvenna og stúlkna um allan heim hafi sætt kynfæralimlestingu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert