Norðmenn hagi sér eins og venjulega

Lögreglumaður við konungshöllina í Osló.
Lögreglumaður við konungshöllina í Osló. AFP

Öryggislögreglan í Noregi, PST, hyggst auka enn á viðbúnað í landinu vegna yfirvofandi hryðjuverkaógnar. Yfirvöld vita litlu meira en í gær um hvað hótunin gæti falið í sér. Almenningur er beðinn um að halda áfram með sitt daglega líf en vera þó á varðbergi. 

Fyrr í dag upplýsti yfirmaður greiningardeildar PST að talið sé að hópur öfgamanna hafi ferðast frá Sýrlandi til Evrópu til að fremja hryðjuverk, þar sem Noregur kunni að vera skotmarkið. 

Lögreglustjórarnir Odd Reidar Humlegård og Kåre Songstad héldu blaðamannafund í Ósló eftir hádegi í dag til að skýra þróun mála og byrjuðu á að greina frá því að staðan hefði ekkert breyst. Þeir sögðu ekki vitað fyrir víst hvort um væri að ræða hóp manna eða einstakling, né hvað viðkomandi hafi nákvæmlega í huga. 

Lögreglustjórarnir sögðust á fundinum skilja vel að margir geti verið órólegir og óttaslegnir vegna ástandsins, ekki síst þau sem upplifðu hryðjuverkin í Osló og á Útey 2011. Þeir reyndu að róa fólk og sögðu m.a. að þrátt fyrir allt væri líklegra en hitt að ekki yrðu nein hryðjuverk framin. Noregur þurfi líklega að búa sig undir tíðari hótanir og grunsemdir um hryðjuverk og vera viðbúinn að bregðast við því, líkt og gerst hafi víða á nágrannalöndunum.

„Við höfum sem samfélag aldrei verið betur undirbúin að takast við hryðjuverk en við erum núna,“ sagði lögreglan.

Þeir sögðu að almenningur eigi að geta lifað sínu lífi eins og eðlilegt er, en fari þó eftir þeim öryggisráðleggingum sem stjórnvöld hafi sent frá sér. Lögreglan vilji ekki skapa óþarfa ótta. Norðmenn séu blessunarlega ekki vanir því að auka þurfi öryggisviðbúnað, en hætt sé við því að það kunni nú að gerast oftar.

Vopnaðir lögreglumenn munu að sögn verða mjög áberandi á götum úti í Noregi um helgina. „Við skiljum mjög vel að í þessari stöðu núna getur það sem við segjum bæði veitt fólki öryggistilfinningu, eða vakið með því ótta. Það er ástæða til að taka þessar aðstæður alvarlega. Þetta er alvarleg hótun,“ sagði Humlegård að sögn NRK.

Sjá fyrri fréttir mbl.is:

Óttast hryðjuverk á mánudaginn

Hryðjuverkahótun í Noregi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert