Gyðingasöfnum í Noregi var lokað í dag vegna öryggisráðstafana í kjölfar tilkynningar um yfirvofandi hryðjuverkaárás jihadista frá Sýrlandi.
Talið er að skæruliðarnir beini sjónum sínum að samkomustöðum gyðinga í árásunum, en það var raunin í maí þegar Gyðingasafnið í Brussel varð fyrir skotárás. Yfirvöld í Belgíu rannsaka málið nú sem hryðjuverk, en fjórir létust í árásinni.
Vidal Paulsen, yfirmaður Gyðingasafnsins í Osló segir að safnið muni verða lokað þar til á sunnudag vegna hótananna. „Lokunin er fyrirbyggjandi. Við viljum ekki lenda í því sama og gerðist í Brussel,“ segir Paulsen.
Samkvæmt norsku fréttastofunni NTB hefur Gyðingasafninu í Þrándheimi einnig verið lokað samkvæmt fyrirmælum lögreglu, en ekki er víst hvenær safnið mun opna á ný.