Costa Concordia komið til Genúa

Ítalska skemmtiferðaskipið Costa Concordia kom til borgarinnar Genúa í nótt. Förin frá eyjunni Giglio - undan strönd héraðsins Toskana - tók hátt í fjóra daga, en þar strandaði það eins og frægt er orðið fyrir tveimur og hálfu ári.

Dráttarbátur dró skipið frá eyjunni og hefur verið unnið við það í dag að losa taugar á milli skipsins og bátanna. 

Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, lagði leið sína til Genúa í dag og fagnaði ótrúlegu afreki björgunarsveitarmanna, að koma skipinu heilu til hafnar.

Skip­inu var haldið uppi með flotpramma o dregið af tveim­ur bát­um á aðeins tveggja hnúta hraða, eða 3,7 km/​klst. Sautján manna áhöfn var um borð í flak­inu meðan á flutn­ing­un­um stóð, en auk þess voru tólf fylgdarbátar með meðal annars köfurum, verkfræðingum og umhverfissérfræðingum, sem höfðu eftirlit með flutningunum.

Umhverfisverndarsinnar höfðu áhyggjur af því að mengunarslys yrði á leiðinni til Genúa en svo varð ekki raunin.

Skipbrotið varð aðfaranótt 13. janúar árið 2012 við eyjuna Giglio. Um borð í skipinu voru rúmlega 4.200 manns frá yfir sjötíu löndum en fyrir marga farþega var um fyrsta kvöld siglingarinnar að ræða. Áreksturinn var svo harður að risastórt gat rifnaði á skrokki skipsins, það snarsnerist og kaldur sjór streymdi inn. Á endanum lagðist skipið síðan á hliðina.

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert