Minni hætta á hryðjuverkaárásum

Lögreglueftirlit hefur verið aukið til muna í Noregi á undanförnum …
Lögreglueftirlit hefur verið aukið til muna í Noregi á undanförnum dögum. AFP

Benedicte Björnland, forstöðumaður öryggisdeildar norsku lögreglunnar, segir að minni hætta sé nú á því að hryðjuverk verði framin í landinu á næstu dögum. „En ástandið er enn alvarlegt og hefur ekki skýrst frekar,“ sagði hún á blaðamannafundi í Ósló í dag.

Hún vildi ekki útskýra ummæli sín frekar, heldur sagði að lögreglan væri enn að afla upplýsinga um málið.

Lögreglan hefur haft heim­ild­ir fyr­ir því að skæru­liðar hafi yf­ir­gefið Sýr­land í vik­unni til þess að vinna hryðju­verk, að öll­um lík­ind­um í Nor­egi, og það jafnvel á morgun, mánudag.

Yfirmaður norsku lögreglunnar sagði við fjölmiðla í dag að stjórnvöld væru áfram í viðbragsstöðu. Ekki yrði dregið strax úr eftirliti, en lögreglan hefur til að mynda aukið landmæraeftirlit sitt til muna á undanförnum dögum.

Á morgun hefst Id, hátíð mús­líma í kjöl­far Rama­dan-föstu­mánaðar­ins, og hefur það verið tal­in líkleg dag­setn­ing til hryðju­verka.

Gunnar Pálsson, sendiherra Íslands í Noregi, sagði í samtali við mbl.is í gær að mikilvægt væri að þeir Íslendingar sem hyggjast ferðast til Noregs á næstunni kynni sér vel allar upplýsingar frá norskum stjórnvöldum og það sem fram hefur komið í fjölmiðlum. Ekki hefur verið talin nein sérstök ástæða til að gefa út ferðaviðvaranir til Noregs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert