Sérfræðingar í flugslysum eru nú komnir að flaki alsírsku farþegavélarinnar, frá Air Algerie, sem hrapaði í Malí á fimmtudaginn. Vélin var á leið yfir eyðimörkina Sahara frá Búrkína Fasó til Alsír.
Sérfræðingarnir munu reyna að finna vísbendingar um hvað það hafi verið sem grandaði vélinni. Frönsk stjórnvöld telja að allt bendi til þess að vélin hafi farist í slæmu veðri, en aðrir möguleikar hafa hins vegar ekki verið útilokaðir.
Báðir flugritar vélarinnar hafa fundist og voru sendir til borgarinnar Gao í Malí, þar sem franski herinn hefur bækistöðvar sínar. Fréttaskýrendur telja að það gæti hindrað rannsókn málsins hversu afskekkt svæðið er þar sem vélin hrapaði.