Ungt fólk, nemendur sem lifðu af ferjuslysið í Suður-Kóreu í apríl, bar í fyrsta skipti vitni í dag er réttarhöld í málum gegn skipstjóra ferjunnar og áhafnarinnar hófust í dag. Nemendunum var ítrekað sagt að bíða í klefum ferjunnar þrátt fyrir að hún væri að sökkva.
„Þau sögðu það sama aftur og aftur,“ sagði ein þeirra sem kom fyrir dóminn í dag. Hún sagði að hún og bekkjarfélagar hennar hefðu farið að skipunum áhafnarinnar þar til ferjan var farin að halla svo mikið að dyr klefans voru fyrir ofan höfuð þeirra.
„Dyrnar voru fyrir ofan höfuð okkar. Við vorum komin í björgunarvesti og forseti bekkjarins lagði til að við myndum bíða þar til við gætum flotið upp og þannig komist burt,“ sagði hún.
Annar nemandi lýsti því hvernig alda hefði sópað bekkjarfélögum hennar aftur inn í sökkvandi ferjuna. Þá sögðu nemendurnir einnig að áhöfn ferjunnar hefði aldrei komið farþegunum til bjargar.
Réttarhöldin fara fram í bænum Gwangju en dómarar og lögfræðingar komu saman í réttasal í Ansan, suður af Seúl, í dag og á morgun til að ræða við sautján nemendur sem samþykktu að bera vitni í málinu. Unga fólkið fékk lögreglufylgd inn í dómshúsið í morgun.
476 manns voru um borð í ferjunni og létu um þrjú hundruð manns lífið. Flestir farþeganna voru úr Dawon-framhaldsskólanum.