Fjöldi þeirra sem Patrick Sawyer komst í kynni við á ferðalagi sínu frá Líberíu til Nígeríu, með viðkomu í Gana og millilendingu í Tógó, er ókunnur en fáeinum dögum eftir að hann kom á áfangastað lést hann af völdum ebólu-vírusnum. Unnið er að því að hafa upp á fólkinu, þar með talið flugáhöfnum og farþegum.
Sawyer er sá fyrsti sem lætur lífið af völdum ebólu í Nígeríu. Mál hans hefur vakið mikla athygli en greint hefur verið frá því að hann hafi bæði kastað upp um borð í flugvél á leiðinni og eins fengið niðurgang. Að komast í snertingu við vessa Sawyer hefði getað nægt til að veikjast.
Þrátt fyrir að sérfræðingar segi ólíklegt að Sawyer hafi borið vírusinn í aðra hefur vaknað upp sú spurning hvernig Sawyer, sem nýverið missti systur sína úr sama vírus, fékk að stíga um borð í flugvél og fljúga út fyrir landsteina Líberíu. Einnig hvort tíðar millilandaflugferðir verði til þess að ebólu-faraldurinn dreifist um heiminn allan en Sawyer átti bókað flug heim til fjölskyldu sinnar í Minnesota í Bandaríkjunum í næsta mánuði.
„Öruggast væri ef fólk myndi ekki ferðast þegar það veikist,“ segir David Heyman, prófessor í smitsjúkdómum. „Vandamálið er hins vegar það, að fólk lætur ekki vita af veikindum sínum. Það lýgur frekar en viðurkenna veikindi til þess að missa ekki af ferðalaginu. Þannig að það er óvíst að ferðatakmarkanir hafi mikil áhrif.“
Hann segir mikilvægast sé fyrir ríki heims að vera reiðubúin því að farþegar veikir af ebólu komi til landsins, svo hægt sé að einangra þá sem fyrst.
Meira en 670 hafa látist í Gíneu, Síerra-Leone og Líberíu.
Frétt mbl.is:
Ferðamenn þurfa ekkert að óttast