Frakkar framselja morðingjann til Belgíu

Mehdi Nemmouche, 29 ára Frakki af alsírskum uppruna, var í …
Mehdi Nemmouche, 29 ára Frakki af alsírskum uppruna, var í dag framseldur til Belgíu vegna fjórfalds morðs í Gyðingasafninu í Brussel. Teikning úr réttarsal í Versölum í Frakklandi. AFP

Frönsk yfirvöld framseldu í dag karlmann sem grunaður er um skotárásina á Gyðingasafninu í Brussel í maí, þar sem fjórir létu lífið. Maðurinn, Mehdi Nemmouche, er einn af mörgum Evrópumönnum sem barist hafa með herskáum íslamistum í Sýrlandi.

Nemmouche er 29 ára gamall Frakki af alsírskum uppruna. Hann var handtekinn 30. maí í frönsku borginni Marseille, eftir ábendingu frá vitnum sem sáu hann ferðast með strætisvagni frá Brussel eftir morðin í Gyðingasafninu.

Nemmouche lýsti skotárás­inni í safn­inu á hend­ur sér í játningu sem hann tók upp á mynd­band sem hann hafði meðferðis er toll­verðirn­ir gómuðu hann. Í farangri hans fundust einnig skammbyssa og Kalashnikov-riffill, áþekk þeim vopnum sem árásarmaðurinn sást bera á upptökum úr öryggismyndavélum á safninu.

Hjón frá Ísrael og frönsk kona létu lífið þegar Nemmouche hóf skothríð á Gyðingasafninu í Brussel 24. maí. Fjórða fórnarlambið, ungur Belgi, særðist alvarlega og lést síðar á sjúkrahúsi af sárum sínum.

Árásin var sú fyrsta af þessu tagi sem beinist gegn gyðingum í Belgíu í þrjá áratugi og vakti hún ótta um nýja bylgju ofbeldisverka vegna gyðingahaturs í Evrópu, sem og áhyggjur af hryðjuverkum af hálfu Evrópumanna sem berjast með íslamistum í Sýrlandi.

Talskona belgísku lögreglunnar, Tine Hollevoet, staðfesti í dag að belgísk yfirvöld hefðu tekið við honum og að hann verði yfirheyrður. 

Árásarmaðurinn handtekinn fyrir tilviljun

Frakki í haldi vegna árásar

Enn leitað að árásarmanninum

Segja árásina beinast gegn gyðingum

Þrír féllu í skotárás í Brussel

Mynd úr öryggismyndavél sem náðist af Mehdi Nemmouche.
Mynd úr öryggismyndavél sem náðist af Mehdi Nemmouche. STR
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka