Ekkert lát á ebólasýkingum

Ekkert lát er á sýkingahrinunni af völdum ebólaveiru sem hófst í Gíneu í byrjun febrúar á þessu ári. Veiran breiddist fljótlegaút til Sierra Leone og Líberíu og tilfellum fjölgar nú hratt. Samkvæmt síðustu upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni hafa alls 1201 einstaklingar veikst af völdum veirunnar, þar af hafa 672 látist.

Frá 21. – 23. júlí var tilkynnt um 108 tilfelli frá löndunum þremur, af þeim voru flest ný tilfelli í Sierra Leone. Þetta kemur fram í samantekt á vef Landlæknisembættisins.

Varnaraðgerðir brugðist vegna skorts á skilningi

Smitleiðir ebólaveirunnar eru með snertismiti, þ.e. með beinni snertingu við blóð og aðra líkamsvessa fólks sem hefur veikst eða látist af völdum veirunnar. Einnig er hægt að smitast af hlutum sem nýlega hafa mengast með líkamsvessum sjúklinga sem og lifandi og dauðum villtum dýrum. Þeir sem hafa orðið fyrir smiti eru fyrst og fremst þeir sem annast sjúklinga og eru þar fjölskyldumeðlimir og heilbrigðisstarfsmenn í mestri áhættu.

Hægt er að rjúfa smitleiðir og koma í veg fyrir smit með handhreinsun og notkun hlífðarbúnaðar, þ.e. hanska, hlífðarsloppa, grímu og hlífðargleraugna við umönnun sjúkra. Umgengni við látna, einangrun sjúkra og eftir atvikum sóttkví eru aðgerðir sem stöðvað geta útbreiðslu sjúkdómsins.

Þessar varnaðaraðgerðir virðast hafa brugðist í mörgum tilvikum þar sem skilning á þessum sóttvarnaráðstöfunum skortir, að sögn Landlæknisembættisins.

Smithætta ferðamanna hverfandi lítil

Meðgöngutími ebóla-sjúkdómsins, þ.e. tími frá smiti þar til einkenni koma í ljós, er 2 – 21 dagur. Á þeim tíma er einstaklingurinn ekki smitandi því smit getur einungis borist frá þeim sem eru með einkenni sýkingarinnar eða eru látnir af völdum hennar.

Helstu einkenni eru skyndilegur hiti, ákafur slappleiki, vöðvaverkir, höfuðverkur og hálssærindi. Þessu fylgja uppköst, niðurgangur, útbrot, skert lifrar- og nýrnastarfsemi og í langt gengnum sjúkdómi inn- og útvortis blæðingar. Engin sértæk meðferð (veirulyf) eða bóluefni er til við sjúkdómnum, meðferðin miðast að því að draga úr einkennum.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins mæla ekki gegn ferðalögum til áðurnefndra landa enda er smithætta ferðamanna hverfandi lítil. Mælst er til þess að ferðamenn forðist:

  • Beina snertingu við blóð eða aðra líkamsvessa frá einstaklingi sem er með einkenni ebólusýkingar eða er látinn af völdum hennar. 
  • Snertingu við lifandi eða dauð, villt dýr eða hrátt eða ófullnægjandi hitameðhöndlað kjöt villtra dýra.
  • Óvarin kynmök við einstakling með ebólasýkingu í a.m.k. sjö vikur eftir veikindin gengu yfir.  
  • Snertingu við sérhvern þann hlut, s.s. nálar, sem hafa mengast af blóði eða öðrum líkamsvessum sjúklings. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert