Rannsókn flugslyssins mun reynast erfið

Rannsakendur á vettvangi slyssins.
Rannsakendur á vettvangi slyssins. Mynd/AFP

Hin franska rannsóknarnefnd flugslysa hefur hafið rannsókn á flugvél Air Algerie, sem hrapaði í síðustu viku í Malí. Vélin hrapaði til jarðar úr 30 þúsund feta hæð á aðeins þremur mínútum. Erfitt getur reynst að bera kennsl á hina látnu því höggið var svo harkalegt að fáar líkamsleifar eru sjáanlegar. 

Mikið óveður var þegar slysið átti sér stað. Upplýsingar liggja fyrir um að flugvélin hafi beygt af leið til þess að fljúga í kringum mesta óveðrið. Flugmönnunum barst beiðni um að snúa vélinni við vegna veðursins stuttu áður en hún hvarf af ratsjám. Vélin hafði verið í loftinu í tæplega klukkustund þegar hún hrapaði og var því nóg af eldsneyti á tönkunum. 

Vitni sem kom að slysstaðnum segir að útlitið hafi verið eins og eftir sprengju og bendir margt til þess að vélin hafi fallið lóðrétt til jarðar á miklum hraða án þess að hafa gert tilraun til nauðlendingar. 

Að sögn lögreglu sem rannsakaði vettvang var vélin mölbrotin og engin lík fundust. Aðstæður á svæðinu gera leitarmönnum erfitt fyrir því það skiptast á milli hitabeltisskúrar og steikjandi hiti. Flugritar vélarinnar fundust og eru þeir komnir til Parísar þar sem þeir verða rannsakaðir. Annar þeirra, sá sem hefur að geyma upplýsingar um ferð vélarinnar, er heill. Hinn flugritinn sem hefur að geyma upptökur af samtölum flugmannanna fannst laskaður og óvíst hvort hægt verði að ná upplýsingum af þeim rita. 

Remi Jouty, formaður frönsku rannsóknarnefndar flugslysa segir að það gæti tekið margar vikur að komast til botns í því hvað kom fyrir vélina. Hann sagðist þó bjartsýnn um að það tækist. 

Gilbert Diendéré, hershöfðingi í hersveit Búrkína Fasó, sem fann vélina, segir hins vegar að erfitt muni reynast að bera kennsl á hina látnu. „Líkin voru dreifð og illa farin. Ég er ekki einu sinni viss um að við munum finna þau öll,“ sagði hann í samtali við The Guardian. 

Sjá frétt The Guardian

Mynd/AFP
Sorgin er mikil á meðal ættingja en 118 létu lífið …
Sorgin er mikil á meðal ættingja en 118 létu lífið í slysinu. Mynd/AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert