Bandarískur læknir, sem sýktur er af ebóla-vírusnum, krefst þess að hjúkrunarfræðingur fái eina skammtinn sem til er af tilraunalyfi gegn sjúkdómnum. Hjúkrunarfræðingurinn, sem einnig er bandarískur, sýktist einnig af sjúkdómnum og liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi í Líberíu.
Kent Brantly og trúboðinn og hjúkrunarfræðingurinn Nancy Writebole eru bæði alvarlega veik en ástand þeirra er þó sagt stöðugt. Í nótt hrakaði Brantly þó töluvert, að því er fram kemur í frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar um málið. Þau liggja bæði á sjúkrahúsi í Líberíu.
Trúboðasamtökin sem Writebole starfar fyrir segja í yfirlýsingu að í gær hafi tilraunalyfið komið til Líberíu. Það hafi þó aðeins dugað fyrir eina manneskju. „Brantly bað um að Nancy Writebol fengi lyfið.“
Í yfirlýsingu samtakanna segir einnig að Brantly, sem er 33 ára, hafi fengið blóð úr fjórtán ára dreng sem læknaðist, þrátt fyrir að hafa sýkst af ebólu. Brantly bjargaði lífi þess drengs.
Ebólu-faraldurinn sem nú geysar í Vestur-Afríku er sá skæðasti frá upphafi. Um 1.300 manns hafa sýkst og 729 hafa látist.
Ebólu-faraldurinn hófst í Gíneu í febrúar en geisar nú einnig í Líberíu og Síerra Leóne, þar sem stjórnvöld hafa nú lýst yfir neyðarástandi.
Samtökin Læknar án landamæra segja að faraldurinn eigi aðeins eftir að versna, enda vanti alla yfirsýn um útbreiðslu hans. Frá þessum löndum eru nokkrar flugferðir í hverri viku til Evrópulandanna Belgíu, Frakklands og Bretlands, auk Afríkulanda eins og Senegal, Ghana og Fílabeinsstrandar.
Engu að síður hafa Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins ekki mælt gegn ferðalögum til Vestur-Afríkulanda, enda er smithætta ferðamanna talin hverfandi lítil, að sögn Landlæknisembættisins.