Kynferðisbrotin fleiri en tuttugu

David John Farnell ásamt eiginkonu sinni.
David John Farnell ásamt eiginkonu sinni.

Ástralskir fjölmiðlar halda því fram í dag að ástralski maðurinn, sem á að hafa skilið son sinn eftir hjá taílenskri staðgöngumóður á síðasta ári, hafi verið fundinn sekur um rúmlega tuttugu kynferðisbrot gegn börnum. Áður hafði komið fram að maðurinn hafi verið fundinn sekur um sex kynferðisbrot gegn börnum.

Hinn 56 ára gamli David John Farnell hefur verið ásakaður ásamt eiginkonu sinni um að skilja barn sitt Gammy eftir hjá taílenskri staðgöngumóður. Gammy, sem er sjö mánaða gamall, er bæði með hjartagalla og Downs-heilkenni. Drengurinn býr nú hjá staðgöngumóðurinni sem er 21 árs gömul og á tvö börn fyrir. 

Ástralska parið fór hinsvegar með heilbrigða tvíburasystur Gammys aftur til Ástralíu og býr hún þar með þeim. Í ljósi fregnanna um að Farnell sé dæmdur barnaníðingur hefur barnaverndarnefnd Vestur-Ástralíu hafið rannsókn á fjölskyldunni og öryggi systur Gammys litla. Starfsfólk nefndarinnar hefur komið að húsi fjölskyldunnar í Bunbury nokkrum sinnum án árangurs þar sem enginn virðist vera heima. 

Starfandi formaður barnaverndarnefndarinnar, Emma White, hefur sagt í samtali við fjölmiðla að þau muni ekki gefast upp. „Við verðum þarna á hverjum degi þangað til að við erum viss um öryggi þessa litla barns.“

Samkvæmt áströlsku fréttastofunni ABC var hundur fjölskyldunnar tekinn af heimilinu af yfirvöldum fyrr í dag eftir að nágrannar fjölskyldunnar létu vita að hundurinn hafi gelt stöðugt á lóð þeirra síðustu tvo daga. 

Frétt ABC um málið.

Gammy er sjö mánaða gamall.
Gammy er sjö mánaða gamall. Ljósmynd/Styrktarsíðan Hope for Gammy
Gammy ásamt staðgöngumóðurinni Patt­aramon Chan­bua.
Gammy ásamt staðgöngumóðurinni Patt­aramon Chan­bua. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert