Tæknitröllin hjá Google segja að snjallbílavæðing samfélagsins muni breyta því hvernig við hugsum um borgir og samgöngur í heild. Fyrstu skrefin í þessari þróun hafa verið tekin í Bretlandi og Finnlandi.
Ökumannalausir bílar, svokallaðir snjallbílar, verða leyfðir á vegum Bretlands frá og með janúar á næsta ári.
Bílarnir verða í þremur borgum til að byrja með, en breska ríkið býður sveitarfélögum styrk sem nemur 10 milljónum punda, tæpum tveimur milljörðum íslenskra króna, fyrir að taka þátt í verkefninu. Frumprófanir munu standa yfir í 18 til 36 mánuði segir í frétt AFP.
Snjallbílar hafa þegar litið dagsins ljós og verið prufukeyrðir í Bandaríkjunum, Japan, Svíþjóð og Þýskalandi, svo dæmi séu tekin.
Google vakti mikla mikla athygli fyrir fáeinum mánuðum þegar tæknirisinn sýndi upptöku af prófunum á snjallbílnum sínum. Fólkið í myndbandinu bendir á að snjallbílar geti haft það í för með sér að blindir og sjónskertir geti nú „keyrt“, auk þess sem ein móðir segir að með þessari tækni gæti hún varið meiri tíma með börnunum sínum og talað við þau á akstri, frekar en að einbeita sér að veginum.
Bílaframleiðandinn Mercedez Benz benti þó fljótt á að fyrirtækið hefði þegar hafið prófanir á snjallbílum, og sýndu fram á getu hans með því að aka honum, eða láta hann aka sér, sömu leið og Bertha Benz ók fyrir yfir 125 árum, milli Mannheim og Pforzheim í Þýskalandi.
Vince Cable, viðskiptaráðherra Bretlands, segir að breskir vísindamenn og verkfræðingar væru frumkvöðlar á sviði hönnunar snjallbíla.
„Tilkynningin í dag markar tímamót, því við munum sjá snjallbíla á götum landsins eftir innan við hálft ár,“ sagði hann í höfuðstöðvum MIRA, einni af rannsóknarmiðstöðvum breska bílaiðnaðarins.
Samtök ökumanna, Automitive Association, eru hins vegar efins um að ökumenn muni telja að snjallbílar séu öruggir.
Í könnun sem náði til 23.000 meðlima samtakanna sögðust 43% að ekki ætti að breyta lögum til að hefja prófanir á bílunum á götum úti.
Edmund King, forseti samtakanna, sagði að ökumenn væru enn tregir til breytinga, og að margir hefðu einfaldlega of gaman af því að keyra til að láta tölvu gera það fyrir þá.
Önnur samtök ökumanna, RAC, segja það munu verða erfitt að fá fólk til að láta eftir stjórnina á bílunum sínum.
David Bizley, tæknistjóri samtakanna, bendir á að margir bílar hafi nú þegar ýmis konar öryggisbúnað, sem taki völdin úr höndum ökumanna, á borð við sjálfvirkt hemlunarkerfi, sem stöðvi bílinn þegar það skynjar að útlit sé fyrir að bíllinn lendi í árekstri.
„Þessar tölvur eru í mörgum tilvikum betri en mannshugurinn í að greina hættur. En ökumenn munu hafa áhyggjur af því að geta ekki stjórnað hraða ökutækisins miðað við aðstæður,“ sagði Bizley við AFP fréttastofuna.
Bretar eru þó ekki einir um hituna þegar kemur að snjallbílum.
The Guardian sagði frá því fyrir tæpum mánuði að borgaryfirvöld í Helsinki ætli sér að koma upp öflugu almenningssamgöngukerfi, sem myndi að miklu leyti byggja á snjallbílum ekki síðar en 2025. Með þessu fylja borgaryfirvöld gera almenningssamgöngukerfi borgarinnar svo gott að það væri glórulaust að eiga einkabíl.
Finnar ætla að byggja kerfi sitt kringum snjallsíma. Ökumenn gætu því pantað sér far með ýmis konar farartækjum, svo sem litlum strætisvögnum, ferjum og snjallbílum. Þannig vilja yfirvöld gera almenningssamgöngukerfið meira miðað að þörfum einstaklingsins. Borgarbúar myndu með þessari nýju tækni tilgreina hvaðan þeir eru að fara og hvert, og kannski bæta við einhverjum sérþörfum.
Appið myndi þannig skipuleggja ferð hvers og eins til að hámarka afköst og hagkvæmni, en samt skila sem flestum beint upp að dyrum. Finnar eru nú þegar með í notkun frumlegt kerfi sem nefnist Kutsuplus. Kerfið virkar ekki ólíkt því kerfi sem til stendur að koma upp í Helsinki, fólk tilgreinir hvert og hvaðan það er að fara, síðan eru óskirnar samkeyrðar og sú leið valin sem þjónar sem flestum.
Sú þjónusta kostar að vísu meira en hefðbundnir strætisvagnar, en minna en leigubílar, sem virðist einhvernveginn sanngjarnt.
Þessar hugmyndir Finna virðast allar koma heim og saman við gildi kynslóðarinnar sem er að vaxa úr grasi. Fólk fætt milli 1980 og 2000 virðist hafa minni áhuga á bílaeign en þær kynslóðir sem fyrir eru. Kutsuplus-þjónustan virðist því þjóna báðum herrum að sem mestu leyti, hún býður hvort tveggja upp á þau þægindi að fara beint frá A til B, án þess að þurfa að standa undir þeim kostnaði sem fylgir því að eiga einkabíl.
Þessi metnaðarfulla áætlun Finna mun þó ekki ganga alveg hnökralaust. Fyrir það fyrsta gerir kerfið ráð fyrir því að allir eigi snjallsíma, á meðan almenningssamgöngukerfi á að þjóna öllum, óháð efnahag. Að vísu er þetta ekki stórt vandamál í Helsinki, því snjallsímaeign Finna er ein sú mesta í heiminum.
Að sama skapi er ekki ljóst hvort þessar áætlanir séu raunhæfar fyrir dreifðari hluta borgarinnar utan við miðborgina. Það breytir því þó ekki að stofngötur borgarinnar eru nú þegar yfirfullar, þannig að þörfin á nýrri nálgun á samgöngur í borginni er mikil.
Borgaryfirvöld í Helsinki eru alls ekki að leggja til að borgin verði algjörlega án einkabíla. Á hinn bóginn er ljóst að þörf er á nýrri hugsun og nálgun á samgöngukerfi borgarinnar, sérstaklega í ljósi afstöðu þeirra sem erfa munu borg til einkabíla, en vilja samt það frelsi sem fylgir því að geta ferðast milli borgarhluta án þess að þurfa að reiða sig á tímatöflur almenningssamgöngukerfa.
Til að gera þessa hugmynd að veruleika hafa borgaryfirvöld í Helsinki fengið til liðs við sig hina 24 ára gömlu Sonju Heikkilä, verkfræðing sem skrifaði meistararitgerð um hvernig megi breyta samgöngukerfinu í Helsinki.
Í umfjöllun Business Insider segir að í ritgerðinni hafi hún fylgt eftir hinum ímyndaða Taneli, en hann er 34 ára kvæntur fjögurra barna faðir, til að sýna hvernig samgöngukerfið í Helsinki virkar. Taneli er byggður á tölfræðigögnum um ferðavenjur Helsinkibúa.
Hugmyndin segir hún að hafi kviknað þegar ljóst var að íbúafjöldi í Helsinku muni aukast um 40% á næstu 35 árum, langt umfram getu almenningssamgöngukerfis borgarinnar til að bregðast við. Umferðaræðar borgarinnar eru þegar við það að springa, þannig að nýrrar nálgunar er þörf.
Hún segir að í þessu nýja kerfi væri eitt miðlægt kerfi sem héldi utan um alla ferðamáta í borginni. Hins vegar gerir hún ráð fyrir að mörg einkafyrirtæki myndu bjóða fram þjónustu sína, hvert með sitt app.
Í ritgerðinni bendir hún einnig á að 95% af öllum banaslysum í Finnlandi megi rekja til mannlegra mistaka. Því væru snjallbílar, þar sem mannshöndin kemur hvergi nærri stjórn bílsins. Snjallbílar myndi því til muna auka umferðaröryggi.
Þessu til viðbótar þá bendir hún á að bílar séu óhagkvæm fyrirbæri, því 95% tímans séu bílar ekki í notkun, heldur bíði eftir eiganda sínum á bílastæði.
Þessi nýja nálgun Finna verður prufukeyrð í upphafi næsta árs í nokkrum hverfum Helsinki. Heikkilä segir að hvaða borg sem er með þokkalegt almenningssamgöngukerfi geti tekið upp hugmyndina hennar og nýtt hjá sér.