Von er á fyrstu niðurstöðum vegna rannsóknar franskrar rannsóknarnefnar flugslysa á flugvél Air Algerie, sem hrapaði í lok júlí á Malí, í dag. Vélin hrapaði til jarðar úr 30 þúsund feta hæð á aðeins þremur mínútum og létu 116 manns lífið.
Nefndin mun fjalla um niðurstöður sínar sem byggðar eru á upplýsingum úr flugrita vélarinnar og hljóðupptöku úr flugstjórnarklefanum.
Utanríkisráðherra Frakklands, Laurent Fabius, hefur þegar greint frá því að flugmenn vélarinnar hafi beðið um að fá að snúa vélinni vegna veðurs. Áður hafði verið greint frá því að 118 manns hefðu látið lífið en síðar kom í ljós að tveir farþegar skiluðu sér ekki í flugið þennan dag.