Hverjir eru Jasídar?

Ungur drengur af Jasídaættum við bæinn Fishkhabur á landamærum Sýrlands …
Ungur drengur af Jasídaættum við bæinn Fishkhabur á landamærum Sýrlands og Írak. Um 20.000 jasídum tókst að flýja af Sinjar-fjalli, sem hefur verið umkringt vígamönnum IS. Flóttinn varð eftir að Bandaríkjaher varpaði sprengjum á hersveitir IS. Hersveitir Kúrda frá Írak, Sýrlandi og Tyrklandi fylgdu fólkinu í skjól. AFP

Fréttir af skelfilegum ofsóknum vígamanna Isis, samtaka ofstækismanna súnníta, er ráða nú hluta af Sýrlandi og norðanverðu Írak, gegn minnihlutahópum vekja óhug um allan heim. Þeir sem ekki samþykkja að gerast súnní-múslímar eru oft drepnir og hundruð þúsunda manna hafa hrakist á brott til annarra héraða í Írak eða flúið land. Framferði grimmdarseggjanna minnir helst á hundaæði talíbana þótt „afrekin“ séu unnin í nafni íslams sem m.a. boðar miskunnsemi.

Enn einn harmleikurinn í sögu þessa gamla, hrjáða menningarsvæðis er hafinn og eins og venjulega eru það óbreyttir borgarar, karlar, konur og ekki síst börn, sem þjást og deyja.

Þrír af hverjum fjórum íbúum Íraks eru arabar sem aðhyllast annaðhvort fylkingu súnníta eða sjíta meðal múslíma, hinir síðarnefndu eru mun fjölmennari. Flest fórnarlömb Isis í Írak hafa verið sjítar en fleiri hafa fengið að kenna á ofstæki þeirra. Kúrdar eru 15-20% íbúa Íraks en þeir rekja ættir sínar til Írans og tala mál sem ekki er skylt arabísku, heldur er indó-evrópskt. Túrkmenar, sem eru náskyldir Tyrkjum, eru þriðja stærsta þjóðarbrotið. Sjítar úr röðum Kúrda og Túrkmena hafa margir orðið fyrir barðinu á Isis.

Allt að tíundi hver Íraki tilheyrir ýmsum öðrum trúflokkum/ þjóðarbrotum en aröbum og Kúrdum. Múslímar eru nú taldir vera alls 97% þjóðarinnar en kristnir, sem voru um 1,4 milljónir fyrir þrem áratugum, hafa margir flúið land og eru nú varla meira en 400 þúsund af alls 35 milljónum. Þeir eiga sér nær 2.000 ára gamlar rætur í landinu en nú virðist hið nýja kalífaveldi Isis vera að binda enda á þá sögu.

Og annar trúarhópur, Jasídar, sem á sér álíka langa sögu á svæðinu, hefur orðið skotspónn vígamannanna. Ekki er ljóst hve margir Jasídar búa nú í Írak, ef til vill um 500 þúsund, flestir í litlum, afskekktum þorpum. Allt að 100 þúsund hafa komist til Kúrdahéraðanna en tugþúsundir þeirra hafa síðustu daga ásamt fleira fólki leitað skjóls á fjallinu Sinjar í norðvesturhluta Íraks. Margir hafa þegar dáið úr hungri og þorsta.

En hverjir eru þessir Jasídar sem nú virðast vera að missa sína heimahaga í Norður-Írak, þá einu sem þeir eiga enn í heiminum? Þeir kalla sig sjálfir Daasin. Menn fæðast Jasídar en geta ekki gengið í söfnuðinn og margt í siðum þeirra hefur orðið til að einangra þá frá grannþjóðum sínum, jafnvel Kúrdum. Þeir eru þó náskyldir þeim en trú Jasída sameinar ýmsa þætti úr kristni og íslam. Hún er þó um margt alveg sér á báti.

Bretar og Svarta bókin

Elstu rætur trúarbragðanna eru óljósar, lengi var talið að þær tengdust eldsdýrkendum Zaraþústra-trúar en að sögn BBC efast fræðimenn nú mjög um það. Í trú Jasída er hvorki til himnaríki né helvíti, þeir trúa á endurholdgun, klæðast aldrei bláum fötum og mega ekki borða grænmeti. Og þeim sem yfirgefa söfnuðinn, giftast út fyrir, er ekki fyrirgefið, ekki frekar en tíðkast meðal múslíma.

Sjálfir segja þeir að Bretar hafa stolið helsta trúarriti þeirra, Svörtu bókinni, hún sé falin einhvers staðar í London. Það bæta þeir sér upp með munnlegri geymd, karlarnir læra hana utan að í bernsku og kenna síðan sonum sínum, segir í Daily Telegraph.

Guð er fjarlægur skapari, segja Jasídar, sem er svo óskiljanlegur okkur dauðlegum mönnum að hann verður ekki tilbeðinn. Þess í stað tigna þeir hálfguðinn Malek Tawwus, öðru nafni Páfugls-engilinn, hann féll en var endurreistur, segja þeir. Annað nafn Tawwus er Shaytan sem merkir kölski á arabísku og þaðan er kominn sá útbreiddi og lífseigi misskilningur að Jasídar séu djöfladýrkendur.

En hann hefur reynst örlagaríkur, grannþjóðir hafa lengi notað óttann við Jasída til að hræða óþekk börn. Í tíð Tyrkjaveldis, sem öllu réð í Miðausturlöndum fram í fyrri heimsstyrjöld, efndu stjórnvöld til endurtekinna ofsókna gegn Jasídum og margir voru drepnir. Litlir útlagahópar Jasída voru hraktir frá bæði Georgíu og Armeníu eftir fall Sovétríkjanna 1991. Helst hafa þeir fengið að vera í friði í Írak en ekki lengur. Nú virðist bíða þeirra þjóðarmorð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert