Fjölmenn mótmæli fóru fram í úthverfi borgarinnar Ferguson í Missouri-ríki Bandaríkjanna í gærkvöldi og í nótt eftir að lögreglumaður skaut átján ára gamlan óvopnaðan blökkumann til bana á laugardaginn. Mótmælin hófust friðsamlega í gær þegar nokkur hundruð manns söfnuðust saman á vettvangi skotárásarinnar, báru skilti og fluttu ávörp. Sífellt meiri hiti færðist hins vegar í leikinn eftir því sem leið á kvöldið og þurfti að kalla út óeirðalögreglumenn úr nágrannabæjum. Þá gengu margir mótmælendur berserksgang og unnu skemmdir á húsum á svæðinu.
Tvennum sögum fer af atburðarásinni sem leiddi til dauða hins átján ára gamla Michaels Brown. Vitni að atvikinu segist í samtali við fréttastofuna KMOV News 4 hafa verið á gangi ásamt Brown þegar lögreglumaður nálgaðist, ávarpaði þá og dró upp skammbyssu. Hann segir lögreglumanninn hafa skotið Brown í þann mund sem hann sneri sér við og lyfti báðum höndum. Þegar Brown féll til jarðar hafi lögreglumaðurinn fært sig nær og skotið hann nokkrum skotum til viðbótar.
John Belmar, lögreglustjóri í St. Louis-sýslu, sagði hins vegar á blaðamannafundi að lögreglumaðurinn hefði skotið Brown í sjálfsvörn. Þannig hafi sá síðarnefndi hindrað lögreglumanninn við að komast út úr lögreglubíl og reynt að grípa byssu hans. Brown hafi orðið fyrir fyrsta skotinu inni í bílnum í miðjum áflogum, en fleiri skotum hafi verið hleypt af þegar þeir komust út.
Móðir Browns, Lesley McSpadden, tilkynnti harmi slegin í samtali við fréttastofuna KMOV TV að hann hefði nýverið útskrifast úr framhaldsskóla og stefnt á háskólanám.
Baráttusamtökin NAACP sögðust í yfirlýsingu hafa sett af stað rannsókn á málinu og hyggjast halda fund í dag „í kjölfar morðsins á Michael Brown“. Atvikið á laugardaginn er sagt vera lýsandi dæmi um spennuna milli lögregluyfirvalda á svæðinu, þar sem flestir lögregluþjónar eru hvítir, og samfélags blökkumanna.
Fjölskylda Browns hefur ráðið lögmanninn Benjamin Crump til starfa, en hann vann einnig fyrir fjölskyldu blökkumannsins Trayvons Martin sem var sautján ára gamall og óvopnaður þegar hann var skotinn til bana af George Zimmerman í Flórída árið 2012.