Þúsundir manna sitja enn fastar

Allt að 30.000 almennir borgarar eru enn fastir á Sinjar-fjalli í norðurhluta Írak, og þurfa á lífsnauðsynlegri aðstoð að halda að mati Sameinuðu þjóðanna. Fólkið, sem tilheyrir Jasída-trúarhópnum, flúði fyrir 10 dögum síðan undan vígamönnum samtakanna Ríki íslams, sem hertóku heimabæ þeirra.

Sameinuðu þjóðirnar áætla að um 1,2 milljónir Íraka séu nú á vergangi innan landamæranna, vegna uppgangs herskárra íslamista. BBC hefur eftir hjálparstarfsmanni sem fór með þyrlu Írakshers til að bjarga flóttafólki sem sat fast á fjallinu að þar virtist sem verið væri að fremja þjóðarmorð, hundruð mannslíka lægju á hráviði.

„Þú getur rétt ímyndað þér hvernig það er þegar þyrlunni er lent innan um 5000 manns og það er aðeins hægt að flytja 10 til 20 burt, en allir reyna að komast um borð,“ sagði hjálparstarfsmaðurinn, Mirza Dinnay, í samtali við BBC. Undanfarnar 5 nætur hafa Bandaríkin og Bretland varpað úr lofti yfir 310 pökkum með hjálpargögnum yfir Sinjar-fjalli, þar á meðal mat, vatni og sjúkragögnum.

Óljós markmið hernaðar Bandaríkjanna

Loftárásir Bandaríkjahers héldu áfram í Írak í dag. Stjórn Obama segir að markmiðið með lofthernaðinum sé að vernda jasída og fleiri trúarhópa sem hafa orðið fyrir árásum íslömsku ofstækismannanna, en mikil óvissa ríkir um markmið hernaðarins til lengri tíma. Óljóst er hvernig Bandaríkjastjórn hyggst koma í veg fyrir að Ríki íslams, samtök íslamista, geti komið á fót „kalífadæmi“ á yfirráðasvæðum sínum í Sýrlandi og Írak.

Fram kemur í fréttaskýringu Boga Þórs Arasonar í Morgunblaðinu í dag að stefna Obama í málefnum ríkjanna tveggja hefur sætt gagnrýni vestra, ekki aðeins meðal repúblikana, heldur einnig demókrata, þeirra á meðal Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra. Obama hefur verið sakaður um að hafa auðveldað stórsókn íslamistanna síðustu vikur með tvennum hætti; fyrst með því að kalla allt bandaríska herliðið í Írak heim árið 2011 og síðan með því að draga það að vopna hófsamar uppreisnarhreyfingar í grannríkinu Sýrlandi. Stjórn Obama var mjög hikandi og treg til að senda uppreisnarhreyfingunum í Sýrlandi bandarísk vopn af ótta við að þau kæmust síðar í hendur íslamskra öfgamanna.

Óttast vaxandi ógn

Þetta hik varð til þess að hófsamari uppreisnarhreyfingar í Sýrlandi koðnuðu niður vegna skorts á vopnum og peningum. Margir liðsmenn þeirra ákváðu því að ganga til liðs við Ríki íslams og fleiri samtök íslamista í Sýrlandi.

Sú stefna stjórnar Obama að forðast íhlutun í stríðinu varð til þess að bandaríski sendiherrann í Sýrlandi, Robert Ford, sagði af sér og kvaðst ekki geta varið hana lengur. Hann tók undir varnaðarorð hermálasérfræðinga sem telja að þjóðaröryggi Bandaríkjanna stafi hætta af samtökum íslamistanna. Þeir óttast m.a. að íslamistar, sem bjuggu í Evrópu eða Bandaríkjunum og gengu til liðs við samtökin, snúi aftur og fremji hryðjuverk á Vesturlöndum.

Repúblikanar á Bandaríkjaþingi hafa gagnrýnt stefnu Obama harkalega. John McCain og Lindsey Graham, repúblikanar í öldungadeildinni, segja stefnu forsetans í baráttunni við íslamistana hafa einkennst af „hálfkáki“ og nauðsynlegt sé að beita meiri hörku til að brjóta samtökin á bak aftur. „Þeim er útþenslustefna eðlislæg og það verður að stöðva þau,“ sögðu þingmennirnir í sameiginlegri yfirlýsingu eftir að Obama tilkynnti takmarkaðan lofthernað gegn vígasveitum samtakanna í Norður-Írak. „Því lengur sem við bíðum með að grípa til aðgerða, þeim mun meiri verður ógnin sem stafar af þeim.“

Andvíg íhlutun

Tengsl ættbálka súnní-múslíma í austanverðu Sýrlandi og í héruðunum Anbar og Nineveh í Norður-Írak hafa verið náin öldum saman og óttast er að Ríki íslams geti notfært sér þau til að festa „kalífadæmi“ sitt á svæðinu í sessi. Samtökin geta nú þegar fjármagnað starfsemi sína án utanaðkomandi aðstoðar með skattlagningu, fjárkúgunum og tekjum af olíuvinnslu á yfirráðasvæðum sínum, að sögn The New York Times.,

Þótt stefna Obama sæti gagnrýni er hún í samræmi við almenningsálitið í Bandaríkjunum. Í könnun sem CNN birti í september sl. sögðust um sex af hverjum tíu þátttakendanna vera andvígir því að Bandaríkin beittu hernaði í Sýrlandi. Samkvæmt könnun Pew-rannsóknamiðstöðvarinnar voru aðeins 39% Bandaríkjamanna hlynnt hernaðaríhlutun í Írak í júlí eftir að samtök íslamistanna hófu sókn sína í norðanverðu landinu, stökktu stjórnarhernum á flótta og náðu m.a. borginni Mosul á sitt vald.

Flóttafólk úr röðum jasída fer yfir landamærin að Sýrlandi. Um …
Flóttafólk úr röðum jasída fer yfir landamærin að Sýrlandi. Um 20.000 flóttamenn, flestir þeirra jasídar, komust af Sinjar-fjalli í Írak eftir að hafa flúið þangað vegna árása vígasveita íslamista sem líta á jasída sem djöfladýrkendur og eru sagðar hafa reynt að útrýma þeim. Trú Jasída sameinar ýmsa þætti úr kristni og íslam. AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert