„Hélt áfram að skjóta“

Mótmælendur mynduðu keðju á götum Ferguson í gærkvöldi.
Mótmælendur mynduðu keðju á götum Ferguson í gærkvöldi. AFP

Lögreglan í bænum Ferguson í Missouri beitti táragasi, rafbyssum og reyksprengjum á mótmælendur seint í gærkvöldi. Þetta er fjórða nóttin í röð sem dauða ungs, svarts, manns er mótmælt í bænum. Lögreglumaður skaut Michael Brown, átján ára, til bana í bænum um hábjartan dag á laugardag. Sjónarvottum og lögreglu ber ekki saman um hvernig dauða hans bar að. Lögreglumaðurinn segir að Brown hafi reynt að ná af sér byssunni, en félagi Browns sem var með honum, segir að Brown hafi verið óvopnaður, stöðvað og rétt upp hendur er lögreglumaðurinn óskaði eftir því. 

Nokkrir mótmælendur grýttu lögregluna. Fréttamaður Reuters segist hafa séð tvo unga menn undirbúa bensínsprengjur. Margir báru klúta fyrir andlitum sínum. Reykur lá yfir öllu svæðinu. 

Flestir íbúar í Ferguson í St. Louis eru svartir. Lögreglan er hins vegar að mestu leyti skipuð hvítum mönnum. Eftir dauða Browns á laugardag hefur soðið upp úr og umræða um kynþáttafordóma innan lögregluna er mjög hávær. 

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, er meðal þeirra sem hafa hvatt til yfirvegunar á meðan Alríkislögreglan rannsakar tildrög málsins. Obama fékk skýrslu um stöðu mótmælanna í gærkvöldi þar sem hann dvaldi á eyjunni Martha's Vineyard. Fjörutíu mótmælendur hafa verið handteknir frá því á laugardag.

Lögreglan hefur bætt við lið sitt á svæðinu og klæðast lögreglumenn brynjum og felulitabúningum. 

„Ég hef fengið nóg af því að láta valta yfir mig vegna húðlitar míns, ég er leiður á offorsi lögreglunnar,“ segir Terrell, átján ára, við Reuters. „Ég mun halda áfram að koma hingað á hverju kvöldi allt þar til réttlætið nær fram að ganga.“

Lögreglan hefur ekki gefið miklar upplýsingar um sína hlið málsins, aðrar en þær að Brown hafi verið skotinn eftir að hafa reynt að ná byssu af lögreglumanni. Þá hefur hún sagt að lögreglumaðurinn hafi þurft að leita sér læknisaðstoðar vegna bólgu í andliti eftir átökin við Brown.

Vinur Browns sem var með honum á laugardag hefur lýst samskiptum Browns og lögreglumanninn á allt annan veg. Annað vitni sagði við CNN sjónvarpsstöðina að hún hafi séð lögreglumanninn reyna að draga Brown til sín þar sem hann sat í bíl sínum og að unglingurinn hafi barist um og reynt að sleppa. Síðan hafi lögreglumaðurinn skotið hann. 

„Strákurinn náði loks að sleppa og fór að hlaupa. Þegar hann hljóp fór lögreglumaðurinn út úr bílnum, elti hann og skaut,“ segir sjónarvotturinn Tiffany Mitchell. Hún segir að Brown hafi snúið sér við og rétt upp hendurnar.

„Og lögreglumaðurinn hélt áfram að skjóta þar til hann bara féll í jörðina og andlit hans skall á steypunni.“

Fréttir mbl.is:

FBI rann­sak­ar dauða Browns 

Skaut óvopnaðan 18 ára pilt

mótmælandi með heimatilbúna sprengju í hendinni.
mótmælandi með heimatilbúna sprengju í hendinni. AFP
Mótmælendur réttar hendurnar upp. Vitni segjast hafa séð Brown rétta …
Mótmælendur réttar hendurnar upp. Vitni segjast hafa séð Brown rétta hendur sínar upp. Lögreglumaðurinn hafi haldið áfram að skjóta á hann. AFP
Mótmæli í Ferguson.
Mótmæli í Ferguson. AFP
Uppréttar hendur í mótmælunum í Ferguson.
Uppréttar hendur í mótmælunum í Ferguson. AFP
Lögreglumenn í mótmælunum í Ferguson.
Lögreglumenn í mótmælunum í Ferguson. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert